Færsluflokkur: Bloggar
lau. 17.10.2009
Meistarinn 80 ára
Þessa mynd tók ég af Guðmundi þegar hann tróð upp ásamt nokkrum félögum sínum, hér í Mosfellsbæ fyrir nokkrum árum síðan. Þetta er ein af mínum uppáhals myndum, sem ég færði honum síðar að gjöf, uppstækkaða og innrammaða.
Einn allra magnaðasti og skemmtilegasti trommari landsins, Guðmundur Steingrímsson, fagnar þann 19. október, 80 ára afmæli sínu. Ég hef verið svo heppinn að hafa kynnst Guðmundi og spilað með honum, það var sérstaklega gaman og skemmtileg lífsreynsla.
Guðmundur er ekki einungis frábær hljóðfæraleikari, heldur einnig, einstaklega skemmtilegur og ljúfur maður. Hann hrífur alla með sér og hefur bókstaflega þannig áhrif á menn og meðspilara að allt fer á ið. Guðmundur hefur haft mikil áhrif á alla sína samferðamenn í tónlist, svo ekki sé talað um trommuleikara landsins.
Bestu afmæliskveðjur kæri Guðmundur.
![]() |
Afmælistónleikar Papa Jazz |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
fim. 15.10.2009
Hún er svakalega fín þessi
Ég kíkti á uppskriftarsíðuna, vefuppskriftir.com í dag og fann þessa fínu fiskisúpu sem freystaði mín mikið.
Súpan var elduð á mínu heimili í kvöld og vakti mikla lukku.
Þessi súpa er nokkuð spes, get ég sagt ykkur kæru bloggvinir. Endilega látið slag standa og eldið hana við gott tækifæri.
Ilmurinn úr eldhúsinu er kröftugur og góður á meðan eldamennskan stendur yfir og jafnvel nokkuð lengi vel á eftir. Það gerir að sjálfsögðu gráðaosturinn.
Fiskisúpa veiðimannsins
Hráefni:
Þú þarft eftirfarandi hráefni í uppskrift að Fiskisúpu veiðimannsins.
2 gulrætur
1 laukur
Blómkál eftir smekk
1/4 hvítkál
1/2 lítri vatn
1/2 lítri mysa
2-3 fiskiteningar
1 gráðaostur
1/2 lítri rjómi
300 grömm rækjur
300 grömm kræklingur
Silungur eða lax
Eldunaraðferð.
Grænmetið er skorið smátt og soðið með fiskiteningunum, vatni og mysu. Osturinn settur út í og þá rjóminn. Soðið vel og lengi. Silungur eða lax flakaður og roðhreinsaður og skorinn í fingurssvera strimla. Sett út í súpuna ásamt rækjum og kræklingi. Soðið við vægan hita í 7 mínútur. Súpuna má þykkja með því að hræra tvær eggjarauður saman við mjólk og hella varlega út í og hita að suðumarki (ekki sjóða).
Ég fékk þessa uppskrift af Fiskisúpu veiðimannsins hjá vefuppskriftum.com. Hún var send þangað inn, af Elínborgu Baldvinsdóttur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
fös. 9.10.2009
Fundur VG félaga með Guðfríði Lilju í Mosfellsbæ
Laugardaginn 10. október verður félagsfundur Vinstri grænna í Mosfellsbæ haldin í Hlégarði kl. 12:00.
Sérstakur gestur fundarins verður, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.
Allir félagar hjartanlega velkomnir.
Kaffi og meðlæti.
Á myndinni má sjá vinkonurnar, Guðfríði Lilju, Silju Rún og Birnu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mikla athygli hefur vakið nú í miðri kreppunni og neikvæðu umræðunni allri hér á landi, frétt sem kom héðan úr Mosfellsbæ, þess efnis að náðst hefðu samningar um uppbyggingu einkarekins sjúkrahúss sem mun sérhæfa sig í mjaðma- og hnjáliðaaðgerðum.
Milljónir manna um heim allan bíða eftir slíkum aðgerðum.
Hér er um að ræða starfsemi sem kallar á, allt að 600 - 1000 störf. Vart þarf að fjölyrða um hverslags innspýtingu slík starfsemi kemur til með að hafa á allt samfélag okkar Mosfellinga og einnig fyrir nágrannasveitarfélög.
Fram hefur komið hjá forsvarsmönnum fyrirtækisins, að umhverfisstefna Mosfellsbæjar hafi ráðið úrslitum um val á bæjarfélagi. Undanfarin ár hefur mikil vinna verið lögð í stefnumótun bæjarfélagsins og hafa umhverfismál vegið þar þungt.Við Vinstri græn, í meirihluta bæjarstjórnar höfum látið mikið til okkar taka á þeim vettvangi.
Sérstaklega vil ég hrósa bæjarstjóra Mosfellsbæjar, Haraldi Sverrissyni og öllu hans starfsfólki fyrir hreint óbilandi eljusemi og trú á okkar sveitarfélagi, sem á endanum varð til þess að við hnepptum hnossið.Í stað þess að skrifa meira um þetta hér, vil ég heldur benda á slóð Mosfellsbæjar þar sem hægt er að lesa nánar um þessa framkvæmd mos.is
Bloggar | Breytt 5.10.2009 kl. 22:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
fös. 2.10.2009
Velheppnuð framkvæmd á gömlu fallegu húsi
Þessa gömlu og skemmtilegu mynd, fékk ég á dögunum, senda frá Birgi D. Sveinssyni. Þarna má sjá gamalt, einvalalið kennara, úr Mosfellssveitinni. Í efri röð frá vinstri: Séra Bjarni Sigurðsson, Lárus Halldórsson, Sigvaldi Sturlaugsson og Birgir D. Sveinsson. Í neðri röð frá vinstri: Tómas Sturlaugsson, Klara Klængsdóttir og Eyjólfur Magnússon.
Eins og flestir vita hefur Brúarlandshúsið fengið sitt gamla hlutverk og er orðið skólahús að nýju. Fyrsti framhaldsskóli Mosfellsbæjar hefur nú tekið þar til starfa og ríkir mikil ánægja á meðal nemenda og kennara.
Það hefur verið einstaklega gaman að fylgjast með þeim velheppnuðu framkvæmdum sem staðið hafa yfir á húsinu undanfarna mánuði og lýkur brátt. Arkitekt innanhúsframkvæmdanna var Vilhjálmur Hjálmarsson en hann lagði einnig á ráðin með breytingar í Varmárskóla á sínum tíma. Þessa dagana er unnið af fullum krafti utandyra, verið er að taka lóðina í kringum húsið í gegn og eins er unnið við múrverk á húsinu.
Það er mikið fagnaðarefni að brátt fær húsið sitt upphaflega útlit. Þegar þeirri vinnu hefur verið lokið, verður Brúarland vafalítið mikil bæjarprýði. Brúarlandshúsið er teiknað af Einari Erlendssyni, arkitekt og fyrrverandi fulltrúa húsameistara ríkisins. Bygging þess hóst árið 1922 og sama ár hófst kennsla í kjallaranum. Brúarland var reist í þremur áföngum.
Í ritinu: Skýrslur um nokkrar framkvæmdir ríkisins 1927-1930, sem kom út 1931, segir um Brúarlandshúsið: Á Brúarlandi í Mosfellssveit í Kjósarsýslu hefir verið reist myndarlegt skólahús úr steinsteypu; er þar og samkomusalur fyrir sveitina í kjallara hússins, sem jafnframt er notaður til leikfimikennslu. Á efri hæð þess er prýðileg skólastofa, þægileg íbúð fyrir kennara og heimavistir fyrir 20-30 börn. Húsið er 13,5 x 9,76 m stórt, og auk þess útbygging 7 x 4 m., allt hitað með hveravatni.
Góður kostur fyrir Mosfellsbæ
Í stefnuskrá okkar Vinstri grænna var það m.a. markmið að gera Brúarlandshúsið upp og fá því verðugt hlutverk í bæjarfélaginu. Þegar nefnd á vegum Menntamálaráðuneytisins, ásamt fulltrúum frá Mosfellsbæ, taldi húsið hentugt og heppilegt til að hefja þar, til að byrja með starfsemi Framhaldsskóla Mosfellsbæjar, var það vissulega í senn, mikið fagnaðarefni og einnig sérlega góður kostur fyrir okkur Mosfellinga. Kostnaður við viðgerðir á húsinu lagðist því ekki einungis á Mosfellsbæ. Vert er að þakka fyrrverandi menntamálaráherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sérlega gott samstarf, en hún sýndi húsinu og verkefninu mikinn áhuga, allt frá upphafi.
Þegar nýr framhaldsskóli verður risinn og tekinn til starfa, eigum við glæsilegt hús sem auðvelt verður að finna verðugt verkefni í bænum.
Brúarlandshúsið var um áratuga skeið miðdepill mannlífs í Mosfellssveit. Það var ekki einungis skólahús, heldur einnig aðal samkomustaður bæjarfélagsins. Það eiga margir gamlir Mosfellingar góðar minningar frá Brúarlandi og nú á þeim væntanlega eftir að fjölga áfram, jafnt og þétt.
Metnaðarfull uppbygging
Það er alltaf gaman þegar gömlum og fallegum húsum er sýnd virðing og þau gerð fallega upp. Fjöldi manna hafa komið að uppbyggingu Brúarlandshússins og er vert að þakka öllu því góða fólki fyrir metnaðarfullt starf. Ég held að á engan sé hallað þó að ég nefni hér sérstaklega nöfn Davíðs B. Sigurðssonar, umsjónamanns fasteigna Mosfellsbæjar og Jóhönnu B. Hansen, bæjarverkfræðingi. Þau hafa fylgt verkefninu eftir allt frá upphafi og lagt þunga áherslu á, að nýta allt það gamla sem mögulegt var í húsinu og með því að halda í því gamalli og góðri sál.
Gamlar og góðar minningar
Það er einnig sérlega góð tilfinning að sjá hús sem er manni svo kært verða svo fallegt að nýju. Í Brúarlandi var afi minn, Lárus Halldórsson, skólastjóri um árabil og bjó þar ásamt eiginkonu sinni Kristínu Magnúsdóttur og átta börnum. Afi Lárus réð föður minn, Tómas Sturlaugsson, sem kennara og þar kynntist hann móður minni, Gerði Lárusdóttur, dóttur Lárusar skólastjóra. Faðir minn varð svo seinna skólastjóri Varmárskóla eða til ársins 1977. Birgir D. Sveinsson, sem allflestir Mosfellingar þekkja, hóf sín kennarastörf í Brúarlandi og bjó þar einnig um tíma ásamt eiginkonu sinni Jórunni Árnadóttur og börnum. Klara Klængsdóttir sem nú dvelur á Hlaðhömrum var einnig kennari í Brúarlandi og Varmárskóla. Hún kenndi á þeim tíma þremur ættliðum í Mosfellssveit að lesa og synda. Klara bjó einnig um árabil í Brúarlandshúsinu.
Það var gaman fyrir mig að hringja skólabjöllunni í fyrsta sinn þegar Brúarland var að nýju vígt sem skólahús.
Ég veit að þetta er nokkuð persónulegt hjá mér hér í lokin, en það er gott að eiga gamlar og góðar minningar og ekki síður meira virði að varðveita þær.
Ég óska öllum Mosfellingum innilega til hamingju með Brúarlandshúsið.
Bloggar | Breytt 3.10.2009 kl. 12:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Það er greinilega mikið rót á Moggabloggurum þessa dagana. Einn af öðrum eru þeir að yfirgefa þennan vettvang. Vafa lítið á maður eftir að sakna margra góðra penna, sem hafa reglulega náð athygli manns. Það er með ólíkindum hvað Dabbi hringlar í hlutunum. Hvar sem hann er og hvert sem hann kemur.
Ég satt að segja veit ekki, hvort þetta upphlaup þessara ágætu bloggara hafi nokkuð að segja. Verið er, að yfirgefa eitt bloggsvæði til að fara á annað, þar sem Dabbi er nú örugglega ekki, það er jú ástæða brottflutningsins. Hver sem er getur opnað síðu á Moggablogginu, dæmi eru þó um, að öðru máli gegni annarsstaðar. Vissulega eru sumir bloggarar greinilega vinsælli hjá Moggabloggsritstjórninni en aðrir, það er svo aftur annað mál.
Ég velti því fyrir mér af hverju verið er að skipta sér af ráðningu Dabba í ritstjórastólinn og allir fjölmiðlar eru uppfullir af því svo dögum skiptir. Á það að koma nokkrum á óvart að Mogginn verði jafnvel aftur hreinræktað málgagn þess arms Sjálfstæðisflokksins? Þeir gömlu forkólfar flokksins, hafa ekki litið bjartan dag, þann tíma sem blaðið stefndi óðfluga í þá átt að vera hlutlaust fréttablað.
Leyfum þessum köllum bara að láta Moggann fara sína leið, verða jafnvel aftur að hreinræktuðum íhaldspésa. Tilhvers að vera að skipta sér af einhverju sem er að gerast á Mogganum? Ég botna bara ekkert í þessu. Hættum þá frekar að skrifa í hann og beinum skrifum okkar annað, t.d. hingað á bloggið og í aðra miðla. Þeir eru nú öllu fleiri möguleikarnir sem við höfum á slíku í dag en fyrir 20 árum. Það væru öflugustu skilaboð sem við getum sent ritstjórn og um leið starfsfólki Moggans, ef okkur er það í mun að stefna blaðsins eigi að vera hlutlaust og málefnaleg.
Mogginn á ekki sjö dagana sæla ef allar aðsendar greinar í blaðinu koma frá Hannesi Hólmstein, Birni Bjarna, Kjartani Gunnars og félögum.
Hjá Morgunblaðinu starfar margt gott fólk og það er vissulega leiðinlegt, að sumt af því hefur nú fengið reisupassann. Ég trúi því ekki að Þeir sem eftir eru hjá blaðinu og vilja veg þess sem mestan láti stjórnast af nokkrum gömlum köllum.
Þessir ágætu blaðamenn gera sér vafalítið grein fyrir því, að ætli blaðið að ná eyrum og augum allra Íslendinga, gengur það aldrei upp, ef allar greinar og fréttaflutningur blaðsins, eigi eingöngu að þóknast gömlum íhaldsmönnum. Sjáum hvað setur.
P.s. Ágætu bloggarar. Endilega takið þátt í skoðanakönnuninni hér upp í hægra horninu hjá mér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
mán. 28.9.2009
Geta ekki allir opnað blogg á Eyjunni?
Ég var að lesa það hjá hjá Dofra Hermannssyni, Samfylkingarmanni, að það geti ekki allir opnað blogg á Eyjunni. Ég verð að viðurkenna, að mér var ekki kunnugt um það, enda hef ég svo sem ekkert verið að spá í að opna blogg á Eyjunni.
Það virðist sem talsverð hreyfing sé á bloggurum þessa dagana og flest bendir til, að ástæðan sé vegna ráðningar nýja ritstjórans hjá Mogganum.
Ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu að Eyjan væri öllum opin. Hvað þarf til að komast inn í Eyjuklúbbinn?
P.s. Endilega munið skoðanakönnunina mína hér uppi í hægra horninu.
Bestu kveðjur frá Kalla Tomm.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
lau. 26.9.2009
Eru menn nú farnir að yfirgefa Moggabloggið, einn af öðrum?
Það er ekki nóg með að fólk sé farið að segja upp áskrift á Mogganum, heldur les maður um það að bloggarar til margra ára séu að hætta á Moggablogginu og jafnvel hver þingmaðurinn á eftir öðrum stígur það skref. Hvað gengur á???
Mikið er leiðinlegt að sjá á eftir gömlum og skemmtilegum pennum af Moggablogginu.
Ég velti því fyrir mér, eftir að lesa um slíkar ákvarðanir, hvort ekki hafi oftar verið þörf hjá okkur Íslendingum að grípa til jafn skeleggra skilaboða, reyndar á annan hátt en að hætta að skrifa á Moggabloggið.
Hverjum er ekki sama um það, þótt við hættum að skrifa á Moggabloggið, svo ekki sé nú talað um ef við færum okkur beint á næsta vef? Jú, jú, vissulega táknrænn gjörningur, en algerlega bitlaus. Gjörningur sem bitnar fyrst og síðast á fullkomlega saklausu fólki.
Ég hef margt um Moggabloggið að segja og sumt af því á ég eflaust eftir að tjá mig um síðar, en látum það liggja á milli hluta.
Við Íslendingar, höfum í gegnum árin sætt okkur við gengdarlaust misferli, ófögnuð og svik án þess að mæla jafnvel orð af munni, hvað þá að arka út á torg og lemja í potta og pönnur. Betra er þó seint en aldrei og nú í dag hafa sem betur fer opnast nýjar víddir gagnvart slíku í þjóðfélaginu. Besta og nærtækasta dæmið um það er vissulega búsáhaldarbyltingin fræga.
Í dag tala menn um að reisa eigi styttu af Helga Hóseassyni í Reykjavík, manni sem margir hlógu að í sinni baráttu. Baráttu sem hann háði einn um árabil.
Mér er ekki kunnugt um að nokkur maður hafi nokkru sinni staðið vaktina við hlið Helga á Langholtsveginum í öll árin sem hann var þar með sín skilti, hvernig sem viðraði.
Maður er alltaf að læra.
Endilega kjósið hjá mér í skoðanakönnuninni hér fyrir ofan.
Bloggar | Breytt 27.9.2009 kl. 13:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
mið. 23.9.2009
Þessi tónlistarmaður og þetta lag
Þó hann hafi valdið mér nokkrum vonbrigðum í Laugardalshöllinni hér forðum.
Það er allt annað mál og löngu fyrirgefið, það var í raun gert, nokkuð fljótlega eftir tónleikana.
Bloggar | Breytt 25.9.2009 kl. 12:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
mið. 23.9.2009
Bilið oftast of stutt
Algengasta orsök árekstra eru aftaná keyrslur og orsökin er oftast sú, að ökumenn aka of nærri næsta bíl á undan. Það er í raun furðuleg árátta sumra ökumanna slíkt aksturslag, þar sem ávinningurinn á því er náttúrulega engin.
Ég get hinsvegar skilið slíkt ökulag, svona tímabundið, ef næsti bíll á undan er langt undir meðalhraða eða að dóla að óþörfu á vinstri akrein. Með öðrum orðum, gefa slíkum dólurum smá ábendingu. Hættan er einnig mikil sem skapast af slíkum lestarstjórum.
Um tíma var afleggjarinn inn í mitt hverfi, beint af Vesturlandsveginum og það var alltaf jafn ónotalegt, rétt áður en beygt var inn í hverfið, ef næsti bíll á eftir var þétt fyrir aftan. Eina ráðið er náttúrulega að gefa stefnuljósið nógu tímanlega og tipla reglulega á bremsurnar.
Þetta var nú bara svona smá ábending hjá mér vegna allra árekstrana sem við lesum um reglulega.
Förum varlega í umferðinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)