Lýðræðið í blóma?

Það hefur verið átakanlega sorglegt að verða vitni að öllum þeim hörmungum sem hafa gengið yfir Borgarahreyfinguna. Þeirri "lýðræðisvitund og samstöðu" sem átti að einkenna hana.

Hreyfingu sem taldi sig hafa ráð undir rifi hverju.

Það er ömurlegt hversu margir virðast þrífast í neikvæðu umhverfi og hafa allt á hornum sér.

Er Borgarahreyfingin jafnvel dæmi um það?

Ég vona að þingmenn hreyfingarinnar eigi eftir að standa sig vel.

Við þurfum á góðum starfskröftum að halda á alþingi Íslendinga næstu ár.

 


Þetta er svolítið væmin færsla, ég má samt til á þessum tímum

Við förum stöku sinnum fjölskyldan í göngutúr um fallegu sveitina okkar og nú í vikunni varð kvöldganga um Skammadal fyrir valinu. Skammidalur er afskaplega fallegur og þar hafa fjölmargar fjölskyldur komið sér upp litlum húsum, flestum í tengslum við kartöflugarða sem þar hafa verið í áratugi.

Þegar við vorum þarna á göngunni hittum við gömul hjón við eitt þessara litlu húsa. Vitanlega buðum við þeim kurteisilega góða kvöldið og ætluðum okkur svo að halda göngunni áfram. Gamli maðurinn spurði okkur þá að því hvort við vildum ekki skoða húsið þeirra og garðinn í kring. Við þáðum boðið og okkur var sýndur gróðri vaxinn litli garðurinn við það og að því loknu var okkur boðið í litla húsið.

Húsið þeirra er 12 fermetrar og í því voru tveir beddar, borð á milli með kerti á, gasmiðstöð, gamalt útvarp, prímus með tveim hellum og fjöldi mynda og persónulegra muna á veggjunum.

Gömlu hjónin sögðu okkur að þetta væri þeirra sælureitur og búinn að vera það í rúm 30 ár. Þau geisluðu þegar þau sögðu okkur frá því hvernig þau hefðu í þessa þrjá áratugi komið sér upp þessum sælureit. Hver spýta, hver nagli, hvert tré, hvert blóm, allt átti sína sögu.

 


Sumarið er tíminn

Já, það eru orð að sönnu hjá Bubba Morthens. Sumarið 2009 hefur verið ánægjulegt hjá mér og mínum og við höfum notið þess vel.

Hápunktur þess hjá okkur hefur verið dvöl í litla sumarhúsinu okkar sem við köllum Leyni og er skammt frá Laugarvatni. Þetta litla hús stendur á landi sem er rétt tæpur hektari af stærð og við eigum ásamt félaga okkar og vini Hilmari Gunnarssyni ritstjóra Mosfellings.

Þarna erum við að búa til sannkallaða paradís á sérstaklega skemmtilegum stað.

Hér koma nokkrar myndir frá síðustu ferð í Leyni með ömmu Gerði.

 

Leynir 2

Fuglahúsið á lokastigi.

Leynir 1

Birna að fúaverja fuglahúsið.

Leynir 3

Útirakstur undir ylvolgum Álafossi.

Leynir 4

Birna í drullusturtunni vinsælu.

Leynir 5

Birna skolar af sér drulluna undir Álafossi.

Leynir 6

Amma Gerður, Lína, og Birna í Leyni.

Leynir 7

Lína og amma Gerður að spjalla og allur Baby born þvottur Birnu á snúrunum.

 


Stórkostlegur Steingrímur

SteingrímurÞað var gaman að sjá dugnaðarforkinn Steingrím J Sigfússon í Kastljósinu í kvöld. Ekkert drottningarviðtal, heldur, skýrt og skorinort.

Ég held að Steingrímur sé einn af okkar duglegustu og vinnusömustu ráðherrum fyrr og síðar. Vissulega hefur oft verið erfitt að kyngja ýmsum ákvörðunum sem hann hefur samþykkt og tekið og vafalítið hafa einnig á stundum farið öfugt ofan í hann eins og marga aðra.

Staðreyndin er samt sú, að þarna fer heiðarlegur maður sem rær öllum árum til að koma skútunni á flot, oft með erfiðum og óvinsælum aðgerðum eins og hann benti á í viðtalinu.

Það var ekki eins og hann hafi haft öll tromp á hendi þegar hann tók við spilunum.

Steingrímur er traustsins verður.  


Afskriftir? Leiðrétting?

Ágætur sveitungi minn og bloggvinur, Sigurður Hreiðar (auto.blog.is) skrifar hjá mér hér að neðan í færslu sem ég kalla Borga, borga ekki, athugasemd þar sem hann bendir á, að það sé ekki rétt að tala um afskriftir skulda, heldur leiðréttingu.

Þetta er sannarlega hárrétt ábending og löngu tímabær. Sigurður skrifar einnig um þetta á síðu sinni í dag.

Ágætu bloggvinir. Ef þið viljið tjá ykkur um þetta hér hjá mér, endilega gerið það undir færslunni sem er hér rétt fyrir neðan og kallast. Borga, borga ekki. Þannig að umræðan fari öll fram á sama stað.

Bestu kveðjur frá Kalla Tomm. 


Það er aðdáunarvert hversu mikil áhersla er lögð á það að þjóðin standi öll saman í þeim erfiðleikum sem að henni steðja

Sjáið færsluna hér að neðan.

Borga, borga ekki, borga, borga ekki

Það er merkilegt að heyra svo mánuðum skiptir allar þær vangaveltur hundruða sérfræðinga um hvaða lausn sé best fyrir okkur Íslendinga til að koma okkur úr þeim miklu vandræðum sem við stöndum frammi fyrir. Sitt sýnist hverjum að því er virðist.

Í fréttum í kvöld taldi félagsmálaráðherra það ómögulega lausn að afskrifa hluta þeirra skulda sem tugþúsundir fjölskyldna standa frammi fyrir og ráða ekkert við. Helstu rökin voru þau, að þá væri annað fólk að taka á sig skuldabirgðar sem það stofnaði ekki til.

Á sama tíma telst það sjálfsagður hlutur að allir íslendingar og fjölskyldur í landinu standi saman að því að greiða niður þau glæpsamlegu athæfi sem þjóðin hefur orðið fyrir af völdum fáeinna aðila.

Þær fjölskyldur sem eiga nú í mestum vanda, þurftu að ganga í gegnum allsherjar skoðun á greiðslugetu sinni til að fá þau lán sem til þurfti í þær framkvæmdir sem til stóðu.

Lán sem eru orðin eitthvað allt annað í dag en þegar til þeirra var stofnað og um þau samið.

 "Snillingarnir miklu" sem voru svo klárir að sjálfsagt þótti að þeir fengju hundruði milljóna í árstekjur þurftu greinilega ekki að ganga í gegnum slík próf til að fá jafnvel milljarða lán, enda hefur komið á daginn að slíkt próf hefðu þeir aldrei staðist.

Ég trúi því seint að það teljist besti kosturinn að hrifsa heimili tugþúsunda, alsaklausra fjölskyldna með öllum þeim hörmungum sem það getur valdið og selja í kjölfarið eignirnar á útsölu verði skömmu síðar, seint, eða jafnvel aldrei.

Væri ekki nær að gefa þessum fjölskyldum færi á því að halda í sín heimili með þeim afskriftum sem til þarf að það sé þeim mögulegt að búa áfram á heimilum sínum.

6. ágúst 2009

Ég má til með að bæta hér inn athugasemd sem mér barst hér að neðan frá Sigurði Hreiðari.

Auðvitað á ekki að tala um afskriftir eins og virðist viðgangast í allri umræðu, heldur leiðréttingu, eins og Sigurður Hreiðar bendir réttilega á. Það segir sig sjálft.

Hér er ekkert um annað en leiðréttingu að ræða. 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband