Hér heyrið þið frumflutning á nýju lagi sannkallaðra meistara

Ég fékk sérlega skemmtilegt og frumlegt símtal í dag, þar sem þess var farið á leit við mig hvort ég væri tilbúinn til þess að frumflytja nýtt lag á bloggsíðu minni.

Það er mér sannarlega ánægja og heyður að fá tækifæri til þess og hér getið þið kæru bloggvinir og aðrir gestir heyrt í gömlu félögum mínum og vinum úr tónlistinni til margra ára. 

Kæru vinir, Biggi, Sigurgeir, jói og Ingó. Gangi ykkur allt í haginn og mikið vona ég að ævintýrið sem við áttum saman fyrir tíu árum við fluttning þessara meistaraverka CCR um land allt eigi eftir að endurtaka sig hjá ykkur. Þetta er frábærlega vel gert hjá ykkur eins og við var að búast.

Kalli Tomm.

Eftirfarandi texti fylgdi sendingunni frá köppunum.

CCREYKJAVÍK eru:

Birgir Haraldsson: Söngur

Ingólfur Sigurðsson: Trommur,  slagverk og milliraddir

Jóhann Ásmundsson: Bassi, hljómborð og forritun

Sigurgeir Sigmundsson: Kassa-, raf-, kjöltu- og pedal stál gítar

Aðrir hljóðfæraleikarar

Þórir Úlfarsson: píanó í “Rockn all over the world”  og orgel í “I put a spell on you”

Eiríkur Hauksson söngur í “It came out from the sky” og “Rockin all over the world”

Upptökur fóru fram í hljóðveri FÍH, gítarvinnustofunni í Löngubrekku, hljóðveri Jóhanns Ásmundssonar í Laugarnesi og í Furunni hljóðveri Þóris Úlfarssonar á tímabilinu maí 2008 til mars 2009.

Upptökum stjórnaði Jóhann Ásmundsson
Aðstoðarmaður í hljóðveri:  Ásmundur Jóhannsson
Útsetningar samvinnuverkefni  CCREYKJVÍK
Hljóðblöndun gerði Jóhann Ásmundsson í hljóðveri sínu í Laugarnesi
Hönnun: Nikulás Róbersson
Prentun: Ljósrit og prent
Framleiðsla:  Ljósrit og Prent.
Ljósmynd á framlið og bakhlið tók Ríkarður Bergstað Jónasson 1967
Ljósmynd af CCREYKJVÍK: Finnbogi Marinósson

1967

forsíða ccr copy

Það var í september 1999 að þeir félagarnir Birgir Haraldsson og Karl Tómasson sem höfðu unnið saman um árabil í hljómsveitinni ”Gildran” og ”66” fengu þá hugmynd að flytja tónlist John Fogerty og Creedence Clearwater Revival.  Bjuggust menn við því að aðeins yrði um eitt kv öld að ræða,  en þær væntingar brugðust algerlega.

Sér til liðs fengu þeir gamlan félaga úr ”Gildrunni” gítarleikarann Sigurgeir Sigmundsson og fljótlega bættist Jóhann Ásmundsson bassaleikari úr Mezzoforte í hópinn og til varð hljómsveitin  Gildrumezz. Fljótt varð mikil eftirspurn eftir hljómsveitinni sem minnkaði ekki þegar að platan “Rockn´n roll” kom út árið 2000 sem innihélt eingöngu lög eftir John Fogerty.

Heimastöð  ”Gildrumezz”  var veitingastaðurinn “Álafoss föt bezt” í Mosfellsbæ sem Karl Tómasson trymbill   átti og rak. Lék hljómsveitin þar samfellt fyrir fullu húsi á veitngastaðnum um 80 kvöld á ári 1999-2002 auk þess að fylla flesta veitingastaði landsins og það eingöngu með lögum frá John Fogerty og CCR.  Þegar að trommarinn og driffjöðurinn Karl Tómasson hóf þátttöku  í bæjarmálapólitík í Mosfellsbæ lagði hljómsveitin upp laupana eftir annars farsælan feril og ca 300 uppákomur.

Nú 10 árum seinna hafa Birgir, Jóhann og Sigurgeir komið á ný saman með  ”Greifanum” Ingólfi Sigurðssyni við trommurnar og mynda hljómsveitina “CCREYKJAVÍK” sem eingöngu leikur lög eftir John  Fogerty og lög sem hann gerði gert vinsæl með félögum sínum í CCR.  Ingólfur kom í stað Karls Tómassonar sem nú hefur yfirgefið trommusettið til þess að stýra bæjarstjórn Mosfellsbæjar.

Diskurinn ”1967” ber nafn eftir stofnári  hljómsveitarinnar ”Creedence Clearwater Reviwal” sem var stofnuð formlega árið 1967 eftir nokkrar fæðingarhríðir og nafnabreytingar.

Það eru forréttindi að mega spila, útsetja og taka upp lög snillinga eins og John  Fogerty. Því líkur efniviður !!!  Það er ekki ætlun okkar að lögin hljómi eins og hjá meistaranum og vonum að það sem við höfum sett í lögin að þessu sinni geri þau ekki verri. 

Rauði þráðurinn í gegnum þessa plötu sem þú hefur nú undir höndum er að leyfa spilagleðinni að njóta sín. Við vonum að hún hafi skilað sér á plast.  Þá hefur ætlunarverkið tekist.

Reykjavík apríl 2009

CCREYKJAVÍK. Biggi, Sigurgeir, Jói og Ingó.

   XX xx x


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Það verður spennandi að sjá hann


Gunnarshólmi

Skein yfir landi sól á sumarvegi,
og silfurbláan Eyjafjallatind
gullrauðum loga glæsti seint á degi.
Við austur gnæfir sú hin mikla mynd
hátt yfir sveit, og höfði björtu svalar
í himinblámans fagurtærri lind.
Beljandi foss við hamrabúann hjalar
á hengiflugi undir jökulrótum,
þar sem að gullið geyma Frosti og Fjalar.
En hinum megin föstum standa fótum,
blásvörtum feldi búin, Tindafjöll
og grænu belti gyrð á dalamótum.
Með hjálminn skyggnda, hvítri líkan mjöll,
horfa þau yfir heiðarvötnin bláu,
sem falla niður fagran Rangárvöll,
þar sem að una byggðarbýlin smáu,
dreifð yfir blómguð tún og grænar grundir.
Við norður rísa Heklu tindar háu.
Svell er á gnípu, eldur geisar undir.
Í ógna djúpi, hörðum vafin dróma,
skelfing og dauði dvelja langar stundir.
En spegilskyggnd í háu lofti ljóma
hrafntinnuþökin yfir svörtum sal.
Þaðan má líta sælan sveitablóma,
því Markarfljót í fögrum skógardal
dunar á eyrum. Breiða þekur bakka
fullgróinn akur, fagurst engjaval
þaðan af breiðir hátt í hlíðarslakka
glitaða blæju, gróna blómum smám.
Klógulir ernir yfir veiði hlakka,
því fiskar vaka þar í öllum ám.
Blikar í lofti birkiþrasta sveimur,
og skógar glymja, skreyttir reynitrjám.
Þá er til ferðar fákum snúið tveimur,
úr rausnargarði háum undir Hlíð,
þangað sem heyrist öldufalla eimur,
því atgang þann ei hefta veður blíð,
sem voldug reisir Rán á Eyjasandi,
þar sem hún heyir heimsins langa stríð.
Um trausta strengi liggur fyrir landi
borðfögur skeið, með bundin segl við rá,
skínandi trjóna gín mót sjávar grandi.
Þar eiga tignir tveir að flytjast á,
bræður, af fögrum fósturjarðar ströndum
og langa stund ei litið aftur fá,
fjarlægum ala aldur sinn í löndum,
útlagar verða, vinar augum fjær.
Svo hafa forlög fært þeim dóm að höndum.
Nú er á brautu borinn vigur skær
frá Hlíðarenda hám, því Gunnar ríður
atgeirnum beitta búinn. Honum nær
dreyrrauðum hesti hleypir gumi, fríður
og bláu saxi gyrður, yfir grund.
Þar mátti kenna Kolskegg allur lýður.
Svo fara báðir bræður enn um stund.
Skeiðfráir jóar hverfa fram að fljóti.
Kolskeggur starir út á Eyjasund,
en Gunnar horfir hlíðarbrekku móti.
Hræðist þá ekki frægðarhetjan góða
óvina fjöld, þó hörðum dauða hóti.
"Sá ég ei fyrr svo fagran jarðargróða,
fénaður dreifir sér um græna haga,
við bleikan akur rósin blikar rjóða.
Hér vil eg una ævi minnar daga
alla, sem guð mér sendir. Farðu vel,
bróðir og vinur!" - Svo er Gunnars saga.

- - -

Því Gunnar vildi heldur bíða hel
en horfinn vera fósturjarðar ströndum.
Grimmlegir fjendur, flárri studdir vél,
fjötruðu góðan dreng í heljar böndum.
Hugljúfa samt ég sögu Gunnar tel,
þar sem ég undrast enn á köldum söndum
lágan að sigra ógnabylgju ólma
algrænu skrauti prýddan Gunnarshólma.
Þar sem að áður akrar huldu völl,
ólgandi Þverá veltur yfir sanda.
Sólroðin líta enn hin öldnu fjöll
árstrauminn harða fögrum dali granda.
Flúinn er dvergur, dáin hamratröll,
dauft er í sveitum, hnípin þjóð í vanda.
En lágum hlífir hulinn verndarkraftur,
hólmanum, þar sem Gunnar sneri aftur.



Jónas Hallgrímsson
1807-1845

Það er óþarfi að finna hjólið upp tvisvar

Didi Sefnt, var stefnt fyrir hönnun sína á þríhjólinu svokallaða sem sést í lok fréttarinnar. Didi er að mörgum talin einn merkasti uppfinningamaður seinni tíma. Fræg er hönnun hans á rafmagnsflugunni.

Fálkinn, var rétt nýbyrjaður að flytja inn þríhjólið svokallaða, eftir Didi, þegar allt fór á verri veg.


mbl.is Hornótt hjól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstarf í 30 ár

Biggi og Kalli

Á þessu ári, eru liðin 30 ár frá því að við Biggi og Þórhallur hófum samstarf. Fyrsta hljómsveitin okkar hét, Sextett Bigga Haralds og þá kom Pass og þar á eftir Gildran. Síðar stofnuðum við Biggi Dúett, sem við kölluðum, Sextíuogsex.

Í vikunni sem nú er að líða var ég ásamt Bigga og Þóri Kristinssyni, textahöfundi Gildrunnar til margra ára, að leggja lokahönd á fyrstu sólóplötu Bigga. Sólóplötu sem hann og Þórir hafa nú á annað ár verið að vinna að. Platan er einstaklega hlý og falleg.

null

Gildran. Biggi, Þórhallur, Kalli og Sigurgeir.

Huldumenn framan 100dpi

Hugarfóstur

Draumur okkar Gildrufélaga er að koma saman í tilefni af 30 ára afmælinu og jafnvel endurútgefa okkar fyrstu tvær plötur saman á tvöfaldan cd. Fyrsta plata okkar, Huldumenn, var einungis gefin út á vínil. Hugarfóstur var einnig gefin út á cd. Plöturnar eru báðar ófáanlegar.

Árið 2009, verður Bigga og Gildrunnar.

Birgir Haraldsson er einn magnaðasti rokksöngvari okkar Íslendinga fyrr og síðar, hann er einnig, einn mesti ljúflingur sem ég hef nokkru sinni kynnst.

 


Farfuglarnir

Lundar

Ég heyrði skemmtilegt viðtal við fuglafræðinginn, Jóhann Óla, á rás 1 í morgun. Hann sagði m.a annars í viðtalinu, hafa heyrt af því að sést hafi til Lóu á Álftarnesi 28. febrúar s.l. sem væri, um mánuði fyrr en vanalegt teldist. Hann sagði að hugsanlega væri þar um vetursetu fugl að ræða.

Mesta athygli mína í viðtalinu vakti umræða hans um þær tugþúsundir manna sem væru farnir að heimsækja Ísland á ári hverju til þess eins að skoða fugla og mynda þá. Jóhann Óli sagði góð fuglaskoðunarhús vera mesta aðdráttarafl fyrir fuglaskoðara, því þá kæmust þeir mun nær fuglunum en vanalega, bæði til að skoða þá og mynda.

Hér á landi hefur aðeins verið komið upp örfáum fuglaskoðunarhúsum og er til að mynda ekkert slíkt við Mývatn sem er einstakt svæði á heimsvísu hvað varðar fuglalíf.

Við Mosfellingar reystum í haust fuglaskoðunarhús við Leiruvoginn sem er einnig einstakur hvað varðar líflegt fuglalíf og verður spennandi að nýta sér það og sjá þar blómlegt fuglalífið í eins mikilli nálægð og kostur er á.

Ljósmyndina hér að ofan tók Jóhann Óli. Myndina sáum við hjónin á sýningu hans fyrir nokkrum árum og kolféllum fyrir. 


Allt getur verið brothætt


Fyrir Óla tengdó


Fyrir Ragnar


Með þökk fyrir samfylgdina

Ragnar ÓlafssonÓlafur Kristján VilhjálmssonÞann 1. mars sl. lést elskulegur mágur minn, Ragnar Ólafsson, í bílslysi og tengdafaðir minn, Ólafur Vilhjálmsson aðeins tveimur dögum síðar þann 4. mars. 

Mikið var gott og lærdómsríkt að kynnast þeim feðgum.

Blessuð sé minning þeirra.

 

Þegar ég kom í fyrsta skipti á heimili fjölskyldunnar að Stórateigi 27, fyrir tæplega tuttugu og fimm árum síðan, fann ég strax notalega strauma.

Fjölskyldan hennar Línu minnar var lítil; mamma, pabbi og Ragnar bróðir. Allt við fjölskylduna og heimilið heillaði mig frá fyrstu tíð. Glaðhlakkaleg tengdamamma, stóísk ró tengdapabba og notalegt viðmót Ragnars.

Allt voru þetta mannkostir sem ég átti eftir að kynnast miklu betur og nánar eftir því sem árin liðu.  Tengdapabbi átti nánast, hvern nagla og hverja skrúfu á sínu gamla heimili í Mosfellsbæ. Allt var gert á þeim hraða sem hentaði og eftir því sem efni leifðu. Í öllum hlutum, innan dyra sem utan, var sál.

Snúrustaurarnir sem Óli smíðaði úr járni og settir voru út í garð voru hannaðir eins og fallegt tré. Þeir prýða gamla garðinn enn í dag. Útibekkirnir og borðin voru listasmíð, útiljósin sem enn prýða götuna, eru engu lík. Jólaskrautið sem Óli hófst handa við að útbúa og hanna mörgum mánuðum fyrir hver jól og var sjaldnast eins, ár frá ári, gladdi vafalítið alla nágranna og þá sem sáu. Natni og metnaður var lagt í allt sem hann tók sér fyrir hendur.

Hæfileikar tengdapabba við meðhöndlun á tré og járni voru miklir. Einnig virtist honum alltaf takast að koma gömlum tækjum og tólum til að verða að gagni að nýju.

Eitt áttum við Óli tengdó sannarlega sameiginlegt, það var áhugi okkar á tónlist. Óendanlegur áhugi okkar á tónlistinni sendi sálir okkar oft saman í heilmikil ferðalög. Óli tengdó kenndi mér að hlusta á óperutónlist og fallegar aríur. Í dag nýt ég fárra hluta betur. Fyrir aðeins fáeinum vikum síðan áttum við saman einstaklega notalega kvöldstund og hlýddum á fjöldann allan af fallegum óperuaríum.

Af Óla, tengdaföður mínum, var margt hægt að læra. Með sinni hægversku ró miðlaði hann fallega af öllu því sem hann átti til allra þeirra sem honum kynntust. Eftir því sem árin og þroskinn hafa yfir mig færst, verð ég meðvitaðri um hversu fallegur, góður og réttsýnn maður hann var. Það var eins og Óli þyrfti aldrei að mæla orð af munni til að fanga athygli og virðingu allra þeirra sem honum kynntust. Það sá ég og áttaði mig á alla tíð og ekki síst nú undir lokin, í hans erfiðu veikindum, þegar hann var hættur að geta tjáð sig. Hann vann hug og hjörtu allra sem honum kynntust.

Mikið er um það rætt í dag að nú sé tími breyttra gilda. Óli tengdapabbi þurfti aldrei að breyta neinum gildum. Hann vissi alltaf hvað stóð sér næst og hvað það var sem skipti öllu máli. Hann var alltaf sáttur við sitt og sína. Samband hans við börn sín og eiginkonu og síðar barnabörnin tvö, Óla og Birnu var fallegt, sérlega fallegt. Tengdaföður minn, Ólaf Kristján Vilhjálmsson, kveð ég með miklum söknuði. Samband okkar var alla tíð einstaklega náið og gott, á það bar aldrei skugga.

Um leið og ég kveð tengdaföður minn hinstu kveðju get ég ekki látið hjá líða að minnast á einstaka ástúð og umhyggju tengdamóður minnar, Millýjar Birnu, til eiginmanns síns, allt til hins síðasta dags. Það var aðdáunarvert að upplifa. Blessuð sé minning Ólafs Vilhjálmssonar. 

Karl Tómasson.

 

Ragnar Ólafsson, mágur minn, lést í bílslysi sunnudaginn 1. mars.  Ragnar var engum líkur. Líf hans og lífsganga einkenndist aldrei af göngu um troðnar slóðir. Slík ganga getur oft verið torfær fyrir þá sem hana fara, um leið og hún getur einnig opnað nýjar víddir slíkum göngugörpum og einnig þeim sem fá tækifæri til að njóta samvista við og kynnast slíkum mönnum. 

Ragnar mágur, var í blóma lífs síns þegar kallið kom. Þrek hans, kraftur og dugnaður hin síðustu ár til að öðlast betra líf hafði skilað honum góðum árangri. Fjallmyndarlegur, stæltur og í betra jafnvægi hafði Ragnar ekki verið í mörg ár. Hann var einstakt ljúfmenni, bráðvel gefinn, víðlesinn, tilfinninganæmur og skemmtilegur.

Við hann var hægt að ræða um allt á milli himins og jarðar, allt virtist hann vita. Með fáum mönnum gat ég hlegið jafn mikið og innilega.  

Við Ragnar áttum einstakt samstarf við upptökur og gerð fjögurra breiðskífa með hljómsveit minni. Á þær samdi Ragnar texta sem höfðu margir djúpstæða merkingu og segja svo margt um hans fallega og einstaka hjartalag. 

Þær eru margar ógleymanlegar stundirnar sem við áttum saman, ég og mín fjölskylda með Ragnari. Samband hans og Línu minnar, systur hans, var engu líkt, algerlega tilgerðarlaust og afslappað. 

Söknuður okkar allra er mikill og hefur söknuður frændsystkina hans, barna okkar Línu, Óla og Birnu, verið sérlega mikill og sár. Ragnar frændi var þeim allt. Sannur vinur, frændi og félagi. Hann gaf þeim allan sinn tíma og alla sína sál, allt frá barnæsku þeirra til hinsta dags.

Minningin fallega um Ragnar frænda á eftir að fylgja þeim og okkur öllum sem kynntumst Ragnari um ókomna tíð. Blessuð sé minning Ragnars Ólafssonar. 

Karl Tómasson.         

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband