þri. 9.2.2010
Gildran 1. maí 2010 í Mosó
Nú er ljóst hvenær við gömlu félagarnir í Gildrunni ætlum að koma saman að nýju og fagna 30 ára samstarfsafmæli.
Laugardagurinn 1. maí 2010 í Hlégarði er málið.
Við hófum okkar samstarf árið 1979 og okkar fyrsta æfingapláss var gamli skúrinn við Hlégarð, þar sem mörg félagasamtök áttu m.a. sitt afdrep. Eins og margir vita, þá stóð það til hjá okkur að gera þetta á nýliðnu ári, enda þá með réttu 30 ár liðin frá okkar upphafi en nokkur óvænt atvik komu í veg fyrir það.
Nú eru allir klárir í bátana og við lofum ykkur öllum, þeim mögnuðustu rokktónleikum sem völ er á.
Sjáumst hress í gamla Hlégarðinum okkar 1. maí 2010.
Ég læt hér fylgja með lag og texta af okkar fyrstu hljómplötu sem er í miklu uppáhaldi hjá okkur félögunum öllum, Vorbrag.
Textinn er eftir Þóri Kristinsson.
Vorbragur
Vaknar allt á vorin
Vermir sólin landið
Grænu laufin borin
Brotið verður bandið
Blíður syngur blærinn
Brosir gulli sólin
Vaknar aftur bærinn
Börnin vantar í bólin
Opin Laugarvegur
Iðar Austurstræti
Digur andann dregur
Dúfa í heiðursæti
Fuglum iðar tjörnin
Fegra loftið sönginn
Brauði kasta börnin
Dapur er nú enginn
Situr bakvið sundin
Esjan undur fríða
Léttist aftur lundin
Dýrðar dagar líða.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
mán. 8.2.2010
Íbúaþing um sjálfbæra þróun í Mosfellsbæ
Undanfarið hefur staðið yfir hjá Mosfellsbæ undirbúningur á íbúaþingi um sjálfbæra þróun. Þingið er eins og gefur að skilja öllum opið.
Mosfellsbær býður ykkur til íbúaþings um sjálfbæra þróun í Mosfellsbæ. Íbúaþingið verður haldið í aðalsal Lágafellsskóla, þriðjudaginn 9. febrúar kl. 20:00-22:00.
Þingið er haldið í tengslum við vinnu bæjaryfirvalda við endurskoðun Staðardagskrá 21 í Mosfellsbæ og þeirri gerð aðgerðaráætlunar sem nú stendur yfir og bæjaryfirvöld munu horfa til næstu árin.
Tilgangurinn er að leita eftir skoðunum og hugmyndum íbúa varðandi sjálfbæra þróun sveitarfélagsins, og hafa þær til hliðsjónar við endurskoðunina.
Allir íbúar bæjarins, þar á meðal fulltrúar félagasamtaka, stofnana og fyrirtækja, eru hvattir til að mæta og stuðla að lifandi umræðu um sjálfbæra þróun í Mosfellsbæ. Nánari upplýsingar veitir Tómas Gíslason umhverfisstjóri í s. 525 6700 eða tomas[hja]mos.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
sun. 7.2.2010
Til hamingju stóri brósi
Bróðir minn, Björgvin Tómasson, var útnefndur iðnaðarmaður ársins 2009 en hann er orgelsmiður og með verkstæði sitt á Stokkseyri.
Um árabil var verkstæði hans í fjósinu á Blikastöðum hér í Mosfellsbæ. Þar var ég um tíma starfsmaður hjá honum og var fróðlegt að kynnast því hvernig risastór hljóðfæri eins og pípuorgel verða til. Pípuorgel geta jafnvel stundum verið nokkur ár í smíðum enda mikið nákvæmnisverk á allan hátt að hanna, smíða og setja slík hljóðfæri saman.
Hljóðfæri Björgvins eru nú komin eitthvað á þriðja tugin og hljóma í kirkjum víða um landið.
Eitt af hljóðfærum Björgvins er í Digraneskirkju í Kópavogi
![]() |
Stóðu sig vel á sveinsprófi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
fös. 5.2.2010
Blómstrandi menning í Mosfellsbæ
Næstu helgi verður haldið hér í Mosfellsbæ, landsmót lúðrasveita. Ein af skrautfjöðrum Mosfellsbæjar um áratuga skeið er lúðrasveitin okkar sem stofnuð var fyrir rúmum 40 árum af Birgi D. Sveinssyni.
Nokkrum sinnum hef ég skrifað um það mikla og merka starf sem Birgir, ásamt frábærum kennurum lúðrasveitarinnar hafa unnið um árabil fyrir allt menningarlíf bæjarfélagsins. Núverandi stjórnandi hljómsveitarinnar, Daði Þór Einarsson var m.a. alinn upp hjá Birgi í lúðrasveitinni.
Mosfellsbær státar af fjölmörgum frábærum listamönnum og er það algerlega ómetanlegt fyrir hvert bæjarfélag að hafa öflugt og gott menningarlíf. Lúðrasveitin á vafalítinn þátt í því hvað varðar tónlistina að minnsta kosti.
Ég set hér inn nokkrar gamlar og nýlegar myndir sem ég á í fórum mínum úr menningarlífi bæjarins. Þær eru valdar af handahófi úr stóru myndasafni mínu og vissulega aðeins brot af öllu menningarstarfinu eins og gefur að skilja.
Myndin er tekin fyrir nokkrum árum síðan af lúðrasveitinni og Birgi D. við minnisvarða af ömmu minni og afa við Varmárskóla. Efst á myndinni til hægri er söngkonan, Íris Hólm, sem syngur nú í úrslitakeppni söngvakeppni sjónvarpsins.
Daði Þór Einarsson, stjórnandi lúðrasveitarinnar.
Gamlir lúðrasveitarfélagar ásamt Birgi D. Myndin er tekin á 40 ára afmæli sveitarinnar.
Þorkell Jóelsson, einn af kennurum lúðrasveitarinnar um margra ára skeið með Birgi í gamla miðasölu búrinu í Hlégarði.
Slagverksleikarinn og kennari minn Reynir Sigurðsson.
Hver þekkir ekki þessa konu? María í einum af fjölmörgum hlutverkum sínum fyrir Leikfélag Mosfellssveitar.
Dóra Wild, dóttir Maríu hér á myndinni fyrir ofan, einnig í einu af fjölmörgum hlutverkum sínum fyrir leikfélagið.
Símon Ívarsson gítarleikari og fyrrum bæjarlistamaður Mosfellsbæjar.
Páll Helgason stjórnar hér einum af þeim fjölmörgu kórum sem hann hefur stjórnað í bæjarfélaginu.
Bjarki Bjarnason rithöfundur færir Steingrími J. Sigfússyni, Sögu Mosfellsbæjar.
Steinunn Marteinsdóttir á Hulduhólum við eitt sinna verka. Steinunn er fyrrum bæjarlistamaður Mosfellsbæjar.
Guðný Halldórsdóttir fyrrum bæjarlistamaður Mosfellsbæjar ásamt bæjarstjóra, formanni menningarmálanefndar og forseta bæjarstjórnar.
Myndin er tekin eftir stofnun Listaskólans.
Myndin er tekin á vinnustofu Þóru Sigurþórsdóttur, leirlistakonu.
Heiðursfélagar Karlakórsins Stefnis. Davíð Guðmundsson, Sigsteinn Pálsson og Þórður Guðmundsson.
Bæjarlistamennirnir, Anna Guðný Guðmundsdóttir, Sigrún Hjálmtýsdóttir og Guðrún Tómasdóttir. Þessa skemmtilegu mynd tók Herdís Sigurjónsdóttir bæjarfulltrúi.
Jónas Þórir.
Hljómurinn, Hilmar og Gústi.
Gildran.
Sigur Rós.
Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar, Sigurður Ingvi Snorrason.
Eins og ég nefni hér að ofan er þetta engan vegin tæmandi listi eða myndir af öllum þeim góðu listamönnum sem starfa í bæjarfélaginu, aðeins brot.
Hér fyrir neðan má sjá lista yfir bæjarlistamenn Mosfellsbæjar.
1995: Skólahljómsveit Mosfellsbæjar
1996: Leikfélag Mosfellssveitar
1997: Inga Elín Kristinsdóttir
1998: Sigrún Hjálmtýsdóttir
1999: Sigurður Þórólfsson
2000: Karlakórinn Stefnir
2001: Sigur Rós
2002: Anna Guðný Guðmundsdóttir
2003: Steinunn Marteinsdóttir
2004: Guðrún Tómasdóttir og Frank Ponzi
2005: Símon H. Ívarsson
2006: Jóhann Hjálmarsson
2007: Ólöf Oddgeirsdóttir
2008: Guðný Halldórsdóttir
2009: Sigurður Ingvi Snorrason
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
fim. 4.2.2010
Stiklað á stóru
Bæjarmálin hafa gengið vel í Mosfellsbæ, þrátt fyrir að hér, líkt og í öðrum bæjarfélögum, hafi þurft að grípa til ráðstafana í kjölfar efnahagshrunsins. Margar af þeim ákvörðunum voru erfiðar og í slíku árferði skiptir öllu máli að forgangsraða rétt og það hafa bæjaryfirvöld kappkostað að gera. Fyrst og síðast hefur verið reynt að standa vörð um skóla, fjölskyldu- og velferðarmál.
Birna með fjallkonunni á miðbæjartorginu fallega
* Bygging glæsilegs Krikaskóla
* Framhaldsskóli hóf störf í Mosfellsbæ
* Undirritun viljayfirlýsingar um byggingu sjúkrahúss og hótels
* Nýtt og vandað miðbæjarskipulags kynnt
* Ævintýragarðurinn og hugmyndir um hönnun hans kynntar
* Nýtt hjúkrunarheimili í burðarliðnum
* Verðlaunatillaga á byggingu nýrrar kirkju og menningarhúss kynnt
* Ný reiðhöll tekin í notkun
Vígsla miðbæjartorgs og útilistaverksins sem þar er
Hér nefni ég nokkur verkefni sem rísa hátt hjá okkur Mosfellingum. Fyrst nefni ég nýjan og glæsilegan Krikaskóla, sem er óðum að taka á sig mynd. Framhaldsskólann okkar langþráða sem tók til starfa í gamla Brúarlandshúsinu síðastliðið haust.
Fyrsta skóflustunga Krikaskóla
Nýlega samþykkti menntamálaráðherra að fram færi samkeppni um hönnun skólans á nýjum stað svo ljóst er að ríkistjórnin mun ekki fresta áformum um byggingu hans. Í haust var undirrituð viljayfirlýsing um uppbyggingu sjúkrahúss og hótels sem mun sérhæfa sig í mjaðma- og hnjáliðaaðgerðum. Þar er um að ræða verkefni og starfsemi af þeirri stærðargráðu að líkja má við grettistak fyrir allt okkar samfélag. ´
Nýtt og vandað miðbæjarskipulag er nú í auglýsingaferli. Þar hefur vandlega verið gætt að halda í græn svæði.
Afhjúpun minnisvarða í tilefni aldarafmælis UMF Aftureldingar
Hugmyndasamkeppni Ævintýragarðsins liggur nú fyrir og þar komu margar spennandi tillögur fram. Ævintýragarðurinn er talandi dæmi um áherslur bæjaryfirvalda í umhverfismálum en stærð hans, umfang og staðsetning mun hafa mikla sérstöðu í bæjarfélaginu. Nú hyllir loks undir að byggingu nýs hjúkrunarheimilis í Mosfellsbæ verði hrynt í framkvæmd en félagsmálaráðherra vinnur þessa dagana við framkvæmdaráætlun um það og fjármögnun þess. Kynnt hefur verið sú tillaga sem bar sigur úr býtum í hönnun kirkju- og menningarhúss og virðist almenn ánægja ríkja um hana.
Í viðtali á Stöð 2 vegna fyrirhugaðs sjúkrahúss
Hér hef ég stiklað á okkar stærstu málum. Þau umfangsminni eru okkur einnig að sjálfsögðu hugleikin en of langt mál að telja þau upp hér.
Íþrótta- og útivistaraðstaða Mosfellsbæjar er tvímælalaust ein af okkar stærstu skrautfjöðrum og alla tíð hefur ríkt mikill einhugur hjá bæjaryfirvöldum að slaka ekkert á í stuðningi við uppbyggingu hennar. Nýjasta dæmið er ný og glæsileg reiðhöll á Varmárbökkum sem tekin var í notkun í nóvembermánuði. Félagar í Hestamannafélaginu Herði eiga miklar þakkir skildar fyrir uppbyggingu hennar en fjöldi sjálfboðaliða lagði nótt við dag við að reisa hana.
Vígsla Brúarlandsskóla
Ekkert er dýrmætara í öllu íþrótta- og tómstundastarfi en áhugasamt fólk sem er tilbúið að leggja sitt af mörkum til að efla það. Við Mosfellingar megum vera þakklátir og stoltir af því fjölmarga góða fólki sem starfar á þeim vettvangi. Stærsta íþróttafélag Mosfellsbæjar er Ungmennafélagið Afturelding og eins og flestir vita fagnaði félagið aldarafmæli á nýliðnu ári. Af því tilefni var m.a. hafist handa við ritun á sögu félagsins. Bókin sem kom út nú á afmælisárinu er hátt í 400 bls og full af fróðleik um þetta merka íþróttafélag. Bókin sem er skrifuð af Bjarka Bjarnasyni og Magnúsi Guðmundssyni.
Ein gömul úr kosningabaráttunni 2006. Árin eru fljót að líða
Nú er hið pólitíska litróf farið að mótast af væntanlegum bæjar- og sveitarstjórnarkosningum. Stjórnmálaflokkarnir eru nú hver af öðrum að undirbúa þá baráttu sem í hönd fer. Samfylkingin hefur lokið sínu prófkjöri og var mjótt á mununum á milli Jónasar Sigurðssonar og Valdimars Leós Friðrikssonar í baráttunni um efsta sætið. Hinir tveir einstaklingarnir sem gáfu kost á sér í oddvitasætið komust ekki á blað á meðal þeirra efstu. Prófkjör Sjálfstæðismanna verður nú um helgina og virðist sem helsta baráttan sé þar um annað sætið. Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri gefur einn kost á sér í það fyrsta. Framsóknarmenn efna til prófkjörs í lok mánaðarins. Hjá Vinstri grænum vinnur nú þessa dagana uppstillingarnefnd við uppröðun á listann.
Allt samstarf á vettvangi sveitarstjórnarinnar byggir á gagnkvæmu trausti og virðingu. Ef það er haft í heiðri tekst vel til, líkt og raunin hefur verið á þessu kjörtímabili.
Við vinstri græn höfum sannarlega lagt okkar af mörkum og munum ganga með ánægju til næstu bæjarstjórnarkosninga að loknu farsælu kjörtímabili sem við erum stolt af.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
mið. 3.2.2010
Sjúkdómar og kosningabarátta, hvað á það sameiginlegt?
Fyrir sex árum síðan greindist ég með krabbamein sem ég hef nú blessunarlega unnið bug á. Ég var útskrifaður á nýliðnu ári og var sú líðan þegar læknirinn minn tilkynnti mér það ólýsanleg, fyrir mig og mína fjölskyldu.
Allt þetta kjörtímabil hefur nokkur hópur fólks, haldið úti bloggsíðu sem hefur haft það eitt að markmiði að reyna að niðurlægja mig og mín störf. Tveimur þessara síða var lokað eins og frægt er orðið, báðar síðurnar voru undir leyninöfnum.
Fyrst var síðu Varmársamtaka Valda, eins og hann var alltaf kallaður lokað og var aðal ástæða þess færsla, þar sem hann skoraði á fólk að varast fólk með rotsjúkdóma. Það var kornið sem fyllti mælinn og yfirmenn Vísisbloggs skelltu þeirri síðu í lás samstundis. Þá var önnur síða opnuð sem var einnig lokað samstundis.
Nú hefur umræðan á þessum síðum báðum færst yfir til fyrrverandi gjaldkera og stjórnarmanns Varmársamtakanna, Ólafs Ragnarssonar (Ólafur í Hvarfi) og að venju detta þar inn þekkt leyninöfn úr umræðunni. Markmiðið er eitt hjá fólkinu sem skrifar á þessa síðu, það er að reyna að niðurlægja störf mín og nú er bæjarstjórinn einnig farinn að fá það óþvegið. Að venju er þetta gert með slíkum hætti að fólki er gersamlega misboðin umræðan.
Nú að nýju, er krabbamein það sem ég fékk og gekk í gegnum orðið að umræðuefni í kosningaáróðri félaganna á síðunni.
Ég vil biðja þetta fólk um að hlífa mér og minni fjölskyldu við þessari umræðu. Þeir pennar sem þarna skrifa, leggja ekki mat á það hvað eru mín einkamál og hver ekki. Ég hef ekki verið feiminn við að ræða um þennan sjúkdóm minn og hvaða áhrif hann hafði á mig. Ég hef reyndar aðeins einu sinni skrifað um þessa reynslu mína hér á blogginu mínu og það var í kjölfar þess, sem umræðan um rotsjúkdóma hófst hjá Valda Sturlaugz, síðunni sem var lokað.
Þetta eru ein ömurlegustu skrif og aðför sem ég hef orðið vitni af og ég veit að það eru mér margir sammála. Veikindi mín eiga ekkert erindi í þann kosningaóhróður sem þarna fer fram.
Að lokum skora ég á ykkur lesendur góðir, að blanda ykkur ekki í umræðuna og þann ófögnuð sem á sér stað þarna, enda gerir það svosem engin að mér sýnist nema gömlu "hugrökku" leynipennarnir og eigandi síðunnar.
Við Mosfellingar óskum ekki eftir slíkri kosningabaráttu, sama hvar í flokki við stöndum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
mið. 3.2.2010
Fundi frestað
Fyrirhuguðum fundi og heimsókn, Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra, sem ég skrifaði um hér að neðan, hefur verið frestað um mánuð.
Fundurinn verður þann 9. mars.
Hann verður auglýstur nánar síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
þri. 2.2.2010
Fésarar
Nýlega var opnuð fésbókarsíða mér til heiðurs. Af þessu frétti ég þegar þó nokkur umræða hafði átt sér stað á henni og margir vinir komnir á hana, m.a. mætir Mosfellingar.
Loks þegar ég var búinn að afla mér upplýsinga um hvernig ég gæti nú blandað mér í umræðuna á síðunni, var allt lok, lok og læs.
Ég vil nota tækifærið og þakka þeim sem gerðust vinir mínir á síðunni um leið og ég frábið mér aðstoð sem þessa til að komast á feisið.
Maður verður bara að feisa þetta eins og karlmaður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)