fös. 13.2.2009
Eitt af mörgum meistaraverkum Bítlanna
Ef þið bara trúið því hvað ég fékk mikið út úr því að sjá Paul Mc Cartney flytja þetta lag á Parken fyrir nokkrum árum síðan.
Góður bloggvinur minn, Jakob Magnússon bassaleikari skrifaði nú nýlega, skemmtilega grein um snilli Paul Mc Cartney á bassann.
Paul og allir gömlu félagarnir hans úr Bítlunum eru sennilega dæmi um snillinga sem koma fram á aðeins 100 ára fresti.
Mikið var gaman að hafa fengið tækifæri til að sjá hann og hlýða á öll fallegu lögin hans.
Frá orginallanum sjálfum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
fös. 13.2.2009
Lifandi grænn miðbær
Hér fyrir neðan er umfjöllun um væntanlegt miðbæjarskipulag í Mosfellsbæ sem birt var í bæjarblaðinu Mosfellingi.
Lifandi, grænn miðbær þar sem framsækin byggingarlist og hlýlegt umhverfi er í aðalatriði er útgangspunktur í tillögu um nýjan miðbæ í Mosfellsbæ sem kynnt verður Mosfellingum næstkomandi miðvikudag. Hugmyndir, tillögur og óskir bæjarbúa voru hafðar í öndvegi við gerð nýs deiliskipulags miðbæjarins sem verið hefur í vinnslu frá árinu 2005 en nú er komin lokamynd á.
Mosfellsbær þarf miðbæ
Að sögn Haraldar Sverrissonar bæjarstjóra og Karls Tómassonar forseta bæjarstjórnar má vafalítið ætla að hinn nýi miðbær verði geysileg lyftistöng fyrir bæjarfélagið.
Þarna myndast svæði fyrir nauðsynlega verslun og þjónustu í þeirri stærðargráðu sem bæjarfélagið þarfnast, ásamt tveimur stórum menningarstofnunum," segir Haraldur. Hvort tveggja mun vafalítið gæða miðbæinn lífi og verða vonandi til þess að hér verði sá græni, lifandi miðbær sem við Mosfellingar höfum þurft á að halda."
Að sögn Haraldar var mikið lagt upp úr því að hugmyndir bæjarbúa yrðu fléttaðar inn í hið nýja deiliskipulag. Gerð var viðhorfskönnun meðal Mosfellinga og í framhaldi af því komið á fót rýnihópum sem fjölluðu sérstaklega um þær tillögur sem bæjarbúar settu fram.
Karl sagði það ljóst að bæjarfélagið hafi vafalítið blætt fyrir það að hafa aldrei haft eiginlegan miðbæ, iðandi af mannlífi. Slíkt er öllum bæjarfélögum nauðsyn," segir hann og bætir við að mikill áhugi hafi verið meðal bæjaryfirvalda um árabil að bæta úr því. Nú er það að verða að veruleika. Það metnaðarfulla skipulag sem nú er kynnt og fjöldi bæjarbúa hefur komið að ber vonandi vitni um þann áhuga," segir Karl.
Sjónarmið íbúa fær brautargengi
"Um haustið 2005 lagði skipulags- og byggingarnefnd fram hugmyndir um nýtt deiliskipulag miðbæjarins unnar af Sigurði Einarssyni arkitekt hjá Batteríinu," segir Haraldur. "Þær hlutu umfjöllun í aðdraganda kosninga en ákveðið var að vinna þær ekki frekar fyrr en að loknum kosningum. Í kjölfarið á sveitarstjórnarkosningunum var haldið áfram með verkefnið og þá samkvæmt málefnasamningi meirihlutans ákveðið að gera leita eftir skoðunum og hugmyndum íbúa í meira mæli að verkinu.
Eftir að tillögur íbúa lágu fyrir var unnið frekar með deiliskipulagið og þær hugmyndir sem nú liggja fyrir eru endurskoðaðar tillögur þar sem sjónarmið íbúa hafa fengið brautargengi," segir Haraldur.
Græn svæði fá aukinn sess
Helstu breytingarnar á deiliskipulagstillögunni eru einna helst þær að græn svæði í miðbænum fá aukinn sess frá fyrri tillögu. "Tekið er meira tillit til trjáræktarinnar við Bjarkarholtið og var sérstaklega farið yfir það hvað af gróðrinum væri best til þess fallin að halda sér og mynda gróðurreit í hjarta bæjarins," bendir Karl á. Þannig gerir tillagan ráð fyrir að eins konar skrúðgarður verði í Bjarkarholtinu sem tengist klapparholtinu í miðju svæðisins. Klapparholtið mun jafnframt njóta sín sem áframhaldandi útvistarsvæði.
Báðir eru þeir sérstaklega ánægðir með hversu mikið tillit hafi verið tekið til að vernda svokallað klapparsvæði. Karls bendir á til gamans að umræddar klappir sem einfaldlega hefðu verið nefndar klettarnir í hans barnæsku hafi verið eitt vinsælasta leiksvæðið á meðal barna búsettra á þessu svæði. Það er einstakt að hafa slíkt stórgrýti óhreyft í miðbæ og óhemju frumlegt og skemmtilegt," segir Karl.
"Rétt er að benda á að heldur hefur verið dregið úr fjölda íbúða frá fyrri hugmyndum og bílastæði eru flest neðanjarðar að hluta eða að öllu leiti og bílar því ekki áberandi sem er mjög mikilvægt til að skapa þessa hlýju grænu stemmingu sem sóst er eftir," sagði Haraldur.
Lóðin milli Vesturlandsvegar og Bjarkarholts var valin til að hýsa væntanlegan framhaldsskóla sem stefnt er á að verði tekinn í notkun haustið 2011. Haraldur og Karl eru á einu máli um að sá mikli fjöldi fólks, jafnt starfsfólk og nemendur, sem fylgja starfsemi af þessu tagi muni gæða miðbæinn lífi. Hið sama eigi við um menningarhús og kirkju sem stefnt er að byggja við Háholtið.
Miðbærinn mun byggjast upp
Haraldur og Karl eru bjartsýnir á að þrátt fyrir efnahagsástandið geti nýtt miðbæjarskipulag orðið að veruleika á næstu árum.
"Það er mjög mikilvægt að nota tímann nú til þess að vinna undirbúningsvinnuna og að ljúka við deiliskipulag miðbæjarins," segir Haraldur.
Samningur er um að framhaldsskólinn verði tilbúinn eftir rúm tvö ár og í gangi er hönnunarsamkeppni um nýja kirkju og menningarhús í miðbænum. Hvort tveggja er innlegg í þessa skipulagstillögu en það er afskaplega mikilvægt fyrir skipulag til framtíðar að í stað þess að skipuleggja í kring um þessar tvær lóðir verði allur miðbærinn hugsaður sem ein heild. Við verðum að sjá til hversu hratt hinn nýi miðbær mun byggjst upp. Það er hins vegar alveg ljóst að miðbær mun byggjast upp, spurningin er einungis hvenær. Róm var til að mynda ekki byggð á einum degi," segir Haraldur.
---------------------------------
Engar töfralausnir
Sigurður Einarsson, arkitekt miðbæjarskipulagsins, bendir á að hugmyndafræðin í þessu nýja deiliskipulagi sé fyrst og fremst að búa til hæfilega þéttan miðbæ sem hæfi Mosfellsbæ. "Þéttleiki tekur mið af umhverfinu eins og það er í dag. Við notum Kardímommubæinn sem ákveðið viðmið fyrir þéttleika og hæð hæstu bygginga í bænum að Kjarna og væntanlegri kirkju undanskilinni".
Miðbær sem virkar
Spurður hver sé lykillinn að því að búa til nýjan miðbæ sem heppnast vel svarar Sigurður að horfa verði á vel heppnaða miðbæi og skoða af hverju þeir virki svona vel. "Maður verður að spyrja sig af hverju til að mynda Laugavegurinn og Strandgatan í Hafnarfirði virki svona vel. Lykillinn að því, þegar byggja á nýjan miðbæ, er að taka upp þetta gamla góða sem virkar. Það eru engar töfralausnir," segir hann.
Uppbrotnari hús
Sigurður bendir jafnframt á að skipulag Bjarkarholtsins sé til að mynda hugsað út frá því sem þekkist í gömlum miðbæjum. Fjölbýlishús, sem þar er gert ráð fyrir að verði byggð, verði brotin upp," en ekki þessar dæmigerðu svalagangablokkir," eins og hann orðar það.
"Við viljum uppbrotnari hús, þriggja til fjögurra hæða hús sem eru ekki þessi týpísku fjölbýli. Húsunum verður stungið niður beggja megin Bjarkarholtsins þannig að húsgaflarnir nái nánast alveg út að götunum þannig að upplifunin verði dálítið áþekk gömlu götunum með stakstæðu húsunum," segir Sigurður.
Breiðgata með trjágöngum
Þá er markmiðið að styrkja götumynd í Þverholtinu með því að byggja fjölbýlishús nær götunni norðanmegin og að planta trjágróðri sitt hvorum megin við götuna eins og þegar hefur verið gert í hluta hennar. Þannig verði mynduð nokkurs konar trjágöng eftir allri götunni.
"Þverholtið gæti verið eins konar breiðgata frá miðbænum í átt að sjónum," segir Sigurður.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
fim. 12.2.2009
Miðbær í Mosó
Í gær var haldinn kynningarfundur um væntanlegt miðbæjarskipulag í Mosfellsbæ. Fundargestir voru um 40- 50 manns. Fundurinn var vel auglýstur og í bæjarblaði okkar Mosfellinga, Mosfellingi, var nokkrum dögum fyrir fundinn mjög ýtarleg kynning á fyrirhuguðu skipulagi, ríkulega myndskreytt.
Miðað við þá kynningu alla og auglýsingarherferð fyrir fundinn má segja að aðsókn hafi verið með minna móti. Því veltir maður fyrir sér hvort ástæðu þess megi jafnvel túlka sem svo að allflestum Mosfellingum hugnist væntanlegt skipulag. Tillagan sem kynnt var byggist á verðlaunaskipulagi og frekari útfærslu á því, eftir að hópur íbúa í bæjarfélaginu hafði komið með athugasemdir við hana.
Fundurinn í gær var að mörgu leyti skemmtilegur og fróðlegur. Hann hófst á ýtarlegri kynningu Haraldar Sverrissonar bæjarstjóra og Sigurðar Einarssonar arkitekts hjá Batteríinu á skipulaginu. Að því loknu var orðið gefið laust og komu nokkrar skemmtilegar athugasemdir frá fundargestum í kjölfarið.
Athygli vekur þó, að nú orðið er ekki haldinn sá fundur um skipulagsmál í Mosfellsbæ öðruvísi en fáeinar manneskjur sem tilheyra Varmársamtökunum, nánast yfirtaki hann með látlausri gagnrýni á allflestar framkvæmdir sem bæjaryfirvöld Mosfellsbæjar standa að. Sama hvort um veglagningar í þéttbýli bæjarins er að ræða, lagningu göngustíga, hönnun og staðsetningu á nýju glæsilegu miðbæjartorgi, væntanlegri kirkju og menningarhúsi, nýjum gerfigrasvelli við Varmá svo eitthvað sé nefnt.
Samtökum þessum er tíðrætt um lýðræði. Ljóst er að bæjaryfirvöld hafa gætt þess í hvívetna að aðkoma bæjarbúa að stórum verkefnum sé ótvíræð og því um leið íbúalýðræðis gætt. Ákvarðanirnar þarf samt að taka svo hægt sé að hefja framkvæmdir og það er bæjaryfirvalda að taka þær. Til þess eru fulltrúarnir kosnir.
Lýðræði bæjarbúa felst fyrst og síðast í því að kjósa bæjarfulltrúa til að taka þær ákvarðanir. Ákvarðanir sem snúa að allri velferð íbúa og framkvæmdum bæjarfélagsins.
Það segir sig sjálft, að öll höfum við okkar skoðanir, eitt erum við sátt við en annað ekki. Þannig er það, einnig hjá bæjarfulltrúum í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. Þessi umrædda mótmælagrúppa verður að sætta sig við það, rétt eins og við, öll hin.
Endalaus tortryggni Varmársamtakanna á undirbúning og aðdraganda allra verkefna á vegum bæjarins minnir orðið á dæmigerða hegðun fólks sem hefur allt á hornum sér.
Ég er farinn að óttast að bæjarbúar hafi ekki orðið áhuga á að koma á auglýsta fundi vegna yfirgangs og sjálfumgleði þessa fólks. Fólks sem telur sig bókstaflega hafa bestu lausnir á öllum sköpuðum hlutum.
Endilega farið þið í framboð og málið er dautt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Umræða um einelti hefur sem betur fer orðið meiri með ári hverju. Fólk er í dag, orðið mun upplýstara um þann ljóta leik og þær hörmungar sem það getur haft í för með sér.
Við fullorðna fólkið, gerum okkur grein fyrir því að eitthvað sem kalla átti stríðni á okkar yngri árum og við í raun trúðum að svo væri, var í raun ekkert annað en einelti. Flest þekkjum við eflaust dæmi um það.
Undanfarið hefur átt sér stað stórmerkileg umræða um einelti. Einelti sem hefur tekið á sig nýja mynd. Rafrænt einelti. Fjöldinn allur af huglausum bloggurum halda úti síðum undir leyninöfnum, til þess eins að herja úr launsátri að persónum. Flest þekkjum við eflaust einnig dæmi um það.
Það er í okkar höndum ágætu bloggarar að hunsa slík skrif. Skrif sem kunna að virka grín á okkar síðum en eru jafnvel mjög meiðandi og særandi fyrir einhverja án þess að við gerum okkur grein fyrir því.
Hver sá sem treystir sér ekki að koma fram undir eigin persónu en um leið leggjast svo lágt að gera lítið úr nafngreindum manneskjum stendur í einelti.
Ágætu bloggarar, komum í veg fyrir slíkt.
Það gerum við m.a. með því að eyða slíkum skrifum út rakleiðis.
Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Mosó.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
þri. 10.2.2009
Furðufuglar
Ég sat á fundi ekki alls fyrir löngu með manni sem er vinsæll fagmaður á sviði allrahanda ráðgjafar og stefnumótunarvinnu fyrir einstaklinga, fyrirtæki, félagasamtök og bæjarfélög.
Hann sagði í upphafi fundarins að hann hefði nýlega verið á fundi með áhugafólki um fuglaskoðun. Á þann fund var reiknað með 15-20 manns en hann sóttu vel á annað hundrað manns.
Þessi orð hans vöktu mikla athygli mína, ekki síst í ljósi þess að við Mosfellingar höfum nú komið okkur upp fyrsta flokks fuglaskoðunarhúsi í Leiruvoginum sem tekið verður í notkun nú á vormánuðum. Við hönnun þess, frágang og staðsetningu var haft samráð við fuglafræðinginn Jóhann Óla Hilmarsson.
Nýlega var heilmikil grein í Morgunblaðinu um stóraukinn áhuga um heim allan á fuglaskoðun. Þar kom m.a. fram að c.a. 1,5 milljón manna eru á ferðinni, allt árið um kring til að fylgjast með fuglum og rannsaka þá.
Í þessari sömu grein sagði Daníel Bergmann fuglaljósmyndari að byggja þyrfti betur upp innra skipulag til að nýta þau tækifæri sem fælust í fuglaskoðun. Hann nefndi einnig að alla aðstöðu hafi vantað fyrir fuglaskoðara og áhugamenn á landinu.
Aðeins væru nokkur bæjarfélög búin að koma upp fuglaskoðunarskýli. Daníel sagði til að mynda að ekkert slíkt væri að finna í Mývatnssveit, mekka fuglaáhugamanna.
Við Mosfellingar höfum eitt fyrst bæjarfélaga komið upp fuglaskoðunarskýli. Frábærri aðstöðu til fuglaskoðunar í Leiruvogi. Hann er án vafa einnig mekka fuglaáhugamanna. Í Leiruvoginum er rétt eins og í Mývatnssveit einstakt fuglalíf.
Þrálát greinaskrif Framsóknarmanna um þá ákvörðun bæjaryfirvalda Mosfellsbæjar að koma upp slíkri aðstöðu í Leiruvoginum og kostnaðinum við það, hafa verið hjákátleg.
Væri ekki nær hjá Framsóknarmönnum að leggjast í lið með okkur að koma því á framfæri að Mosfellsbær, eitt fyrst bæjarfélaga hefði upp á slíka aðstöðu að bjóða og um leið, reyna að lokka til okkar þann óhemjufjölda fuglaáhugamanna til að koma og sjá okkar einstaka fuglalíf við fyrsta flokks aðstæður.
Allt er þetta spurning um að sjá tækifærin og skynja þau.
Bloggar | Breytt 11.2.2009 kl. 00:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
mán. 9.2.2009
Vinstri græn í Mosó
Ég vil endilega vekja athygli á heimasíðu okkar Vinstri grænna í Mosfellsbæ (vgmos.is)
Þar er hægt að lesa um fréttir úr bæjarlífinu og úr pólitíkinni.
Lífleg og skemmtileg síða sem stjórnað er af Högna Snæ Haukssyni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
fös. 6.2.2009
Svo furðulegt sem það kann að vera
Þrátt fyrir að Gildran og Mezzoforte eigi fátt sameiginlegt, þá hafa, einhverahluta vegna, leiðir hljómsveitanna oft leigið saman. Ég og Gulli Briem, sóttum báðir á sama tíma einkatíma í slagverksleik hjá Reyni Sigurðssyni. Ég sótti í framhaldi af því einkatíma hjá Gulla Briem til að læra á trommusett.
Jóhann Ásmundsson hljóðritaði eina af vinsælustu hljómplötum Gildrunnar sem kom út fyrir 17 árum, hún bar einfaldlega nafnið Út. Á þeirri hljómplötu komu allir meðlimir Mezzoforte við sögu.
Síðar stofnsettum við félagarnir í Gildrunni ásamt Jóa Ásmunds hljómsveit sem við kölluðum Gildrumezz. Hún naut mikilla vinsælda.
Nú í vikunni höfum við félagar enn ruglað saman reytum okkar og sett saman skemmtilegt prógram sem við ætlum að flytja á 10 ára afmælishátíð Vinstri grænna nú um helgina.
Mikið óskaplega er alltaf gaman hjá okkur þegar við hittumst
Gulli Briem og Sigurgeir á æfingunni í dag.
Jói Ásmunds.
Kalli Tomm og Jói Ásmunds.
Biggi Haralds.
Gömlu félagarnir, Kalli Tomm og Gulli Briem.
Á æfingunni í dag.
Bloggar | Breytt 7.2.2009 kl. 11:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
fös. 6.2.2009
Munnharpan, fallegt og skemmtilegt hljóðfæri
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
mið. 4.2.2009
Menningarhús og kirkja í Mosfellsbæ
Ljóst er að kirkjurnar okkar tvær í Mosfellsbæ eru löngu hættar að anna sóknarbörnum sem hefur eins og gefur að skilja fjölgað mikið í bæjarfélaginu undanfarin ár. Nú stendur til að reyst verði ný og glæsileg kirkja ásamt menningarhúsi í miðbæ Mosfellsbæjar og er nú að hefjast samkeppni um hönnun mannvirkisins. Auglýsinguna má sjá á mos.is
Mosfellsbær og Lágafellssókn efna til samkeppni um hönnun á sameiginlegu menningarhúsi og kirkju í miðbæ Mosfellsbæjar í samstarfi við Arkitektafélag Íslands.
Markmið með hugmyndasamkeppninni er meðal annars að laða fram fjölbreyttar og metnaðarfullar hugmyndir að menningarhúsi og kirkju er myndi sterka starfræna og byggingarlistarlega heild. Um leið er stuðlað að samvinnu til eflingar kirkju- og menningarstarfsemi, er verði bæjarfélaginu til sóma og menningarlífi bæjarins til framdráttar.
Áhersluatriði dómnefndar við mat á lausnum eru m.a. að heildaryfirbragð byggingarinnar endurspegli framsækna byggingarlist, að byggingin falli vel að umhverfi sínu og
verði sveigjanleg í notkun. Gert er ráð fyrir að í húsinu verði fjölbreytt starfsemi á vegum kirkju og menningarhúss, svo sem hefðbundið kirkjustarf, safnaðarsalur, bókasafn, lista- og tónlistarsalir og veitingarekstur.
Samkeppnin er almenn hugmyndasamkeppni og öllum opin. Veitt verða verðlaun að heildarfjárhæð kr. 7.000.000.
Keppnislýsingu er að finna á vef Arkitektafélags Íslands, ai.is, og vef Mosfellsbæjar, mos.is. Önnur keppnisgögn verða afhent frá og með 4. febrúar gegn skilatryggingu að upphæð kr. 5.000, á skrifstofu Arkitektafélags Íslands, kl. 9:00 13:00 virka daga.
Áætlað er að dómnefnd ljúki störfum fyrir föstudaginn 29. maí 2009.
Mosfellskirkja í Mosfellsdal á fögrum vetrardegi nú nýlega.
Lágafellskirkja, einnig á fögrum degi nú nýlega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
mið. 4.2.2009
Lífshlaupið hefst í dag að Varmá í Mosfellsbæ
Opnunarhátíð Lífshlaupsins, landskeppni í hreyfingu fer fram í dag við Íþróttamannvirkin að Varmá. Fjöldi góðra gesta verður við opnunina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)