fös. 6.12.2013
Þakklæti er mér efst í huga
Í bæjarblaðinu Mosfellingi birtist í gær skoðanakönnun gerð af Capacent Gallup um fylgi flokka í Mosfellsbæ. Könnunin var stór, gerð dagana 5. - 27. nóvember.
Samkvæmt könnuninni mælist fylgi Vinstri grænna í Mosfellsbæ 18,3% sem er eins og best gerist hjá flokknum á landsvísu. Vinstri græn er sá flokkur sem eykur fylgi sitt mest allra flokka og bætir við sig manni í bæjarstjórn Mosfellsbæjar.
Íbúahreyfingin hrynur í fylgi og missir sinn mann, Framsókn einnig og Samfylkingin fer niður í 10,9% en heldur einum manni. Sjálfstæðisflokkur eykur fylgi sitt um 3% og bætir við manni.
Samkvæmt þessu nýtur meirihluti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar nú 71% fylgi. Mér er til efs að viðlíkt fylgi sé algengt á meðal meirihluta á landsvísu og það eftir átta ára stjórnarsetu.
Ég held að þetta hljóti að teljast ótvíræð skilaboð um það að við meirihlutinn í bæjarstjórn Mosfellsbæjar séum á leið sem þorri íbúa Mosfellsbæjar kann að meta.
Mér er nú efst í huga mikið þakklæti fyrir það traust sem þessi niðurstaða sínir.
Ég er afar stoltur maður í dag og held að þessi skoðannakönnun síni það nú endanlega að það er fólkið sem skiptir máli, ekki flokkskírteynið. Það eru gamaldags viðhorf og á undanhaldi sem betur fer.
Ég kveð pólitíkina mjög sáttur og sæll.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
fim. 5.12.2013
Birna ballerína
Hún Birna okkar er nú á níunda ári í ballettnámi í Ballettskóla Eddu Scheving. Það er gaman að hafa fylgst með því stórkostlega starfi sem þar fer fram. Skólinn á sér langa sögu og fagnaði 50 ára afmæli fyrir tveimur árum.
Birna hefur verið alsæl öll þessi ár og fer áhugi hennar vaxandi, þökk sé frábærum kennurum hennar í gegnum árin, Brynju Scheving og Tinnu Ágústsdóttur.
Það leikur engin vafi á því að nám sem þetta, sem er svo margþætt, dansinn, æfingarnar, aginn og tónlistin, markar hvern einstakling ævilangt.
Hér má sjá myndir sem við tókum af Birnu okkar og fleiri ballerínum á jólasýningu í Tjarnarbíói í gær.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
mán. 2.12.2013
Trabbinn frábæri
Minn annar bíll og sá fyrsti nýi, var Trabant station. Ég hef aldrei verið jafn hamingjusamur eftir bílakaup eins og þegar ég fékk Trabbann minn. Þetta var árið 1984 og bílinn fékk ég að sjálfsögðu hjá umboðinu sem þá bar nafn stofnandans, Ingvari Helgasyni. Þegar ég náði í Trabbann stóð hann glansandi og glæsilegur og beið eftir mér. Það var búið að líma miða í afturgluggann sem á stóð Klúbburinn skynsemin ræður en það var félag sem starfrækt var af Tabant eigendum. Ég var leystur út með gjöfum og fékk meðal annars þennan fína álf sem ég er búinn að setja á myndasíðuna. Álfurinn hefur alla tíð síðan verið í miklu uppáhaldi hjá mér.
Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim á nýja Trabbanum var að taka öll hurðarspjöld úr honum og troða steinull allstaðar sem mögulegt var að koma henni fyrir. Ég fékk ekta Álafoss ullarteppi hjá Óskari heitnum á Álafossi og sneið það vandlega á gólfið. Þá voru Jensen græjurnar settar í og þá voru allir vegir mér færir.
Trabbinn minn sló ekki feilpúst þau rúmu tvö ár sem ég átti hann. Það eina sem ég þurfti að gera var að kaupa á hann ný þurrkublöð.
Það sem meira er að þegar ég seldi hann fékk ég staðfest að merkingin í afturglugganum, skynsemin ræður, voru orð að sönnu. Ég keypti nefnilega bílinn á 86.000.- og seldi hann eins og áður sagði rúmum tveimur árum síðar á kr. 75.000.- á borðið. Afföllin voru semsagt kr. 11.000.-
Heitir þetta ekki að láta skynsemina ráða?
Síðar eignaðist ég annan Trabba sem ég keypti á 8.000.- krónur og átti hann í ár og sló hann heldur aldrei feilpúst. Þetta eru alvöru vagnar, það vita allir sem hafa átt Trabba. Bílar langt á undan sinni samtíð smíðaðir úr plasti.
Með kveðju Kalli Tomm.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)