Síðan eru liðin 21 ár


Minning um elskulega konu

Með einlægri þökk fyrir samfylgdina góðu vil ég hér, minnast elskulegrar tengdamóður minnar, Millýjar Birnu, sem lést þann 5. nóvember s.l. Eldhress og elskuleg kona sem bræddi hjörtu allra sem henni kynntust. 

Millý 1010 ný     

Elskulega tengdamóður mína, Millýju Birnu, kveð ég nú eftir stutta sjúkdómslegu, með miklum söknuði, fráfall hennar kom öllum að óvörum. Öll góðu árin sem ég var svo lánsamur að eiga með henni, mun ég alla tíð minnast með þökk og hlýju.

 

Allt hennar líf einkenndist af mikilli ást og umhyggju til sinna nánustu og til allra sem á vegi hennar voru. Tengdamamma var vinamörg kona og talaði alltaf jafn fallega um allar sínar góðu vinkonur sem reyndust henni svo traustar og góðar. Mínir vinir hafa oft haft orð á því við mig hversu einlæg hún var í öllum samskiptum við þá og þeim áhuga sem hún sýndi alltaf tónlistaráhuga mínum.

 

Þegar ég skrifa nú þessi minningarorð um tengdamóður mína, eru aðeins átta mánuðir liðnir frá því að feðgarnir elskulegu, Ólafur tengdapabbi og Ragnar mágur létust. Allur minn hugur er því nú, hjá elskulegri, Línu minni og börnum okkar, Óla og Birnu. Söknuðurinn er meiri en orð fá líst. Mamma og amma, pabbi og afi, Ragnar bróðir og frændi, hafa nú kvatt okkur, öll á sama árinu

Huggun mín og okkar allra í þeirri miklu sorg og söknuði sem nú ríkir, er samt alltaf, að hafa fengið að njóta samvista með svo fallegum og góðum manneskjum sem höfðu svo mikið og gott að bera. Öll áttu þau það sameiginlegt að njóta lífsins og tilverunnar algerlega laus við þörf, eða kappsemi, gagnvart efnislegum gæðum. Allt snérist um að njóta þess sem var þeim næst, fullkomlega sæl með sitt.

 

Þegar barnabörnin hennar Millýjar tvö, Óli og Birna komu inn í líf hennar, var ástin og umhyggjan gagnvart þeim alltaf einstaklega falleg og hlý. Þau áttu hug hennar allan.

 

Elsku hjartans Lína mín, styrkur þinn og öll þau fallegu orð sem þú hefur sagt undanfarna mánuði eftir fráfall feðganna og nú síðastliðna daga eftir fráfall móður þinnar, eru mér og börnum okkar dýrmætari en nokkuð annað. Sú ást og vinátta sem þið mæðgur báruð hvor til annarra alla tíð, var einstaklega falleg og lærdómsrík öllum sem sáu og upplifðu.

 

Manstu Lína mín, hvað ég hafði oft orð á því við þig þegar við kynntumst og í gegnum árin, hvað mér fannst samband ykkar mæðgna alltaf fallegt. Það breyttist ekkert í áranna rás, öðru nær. Það var alltaf einlægt, hreinskiptið og gott. Fegurð þess náði hæstu hæðum á dánarbeði móður þinnar, þar sem þú hugsaðir svo fallega um hana.

 

Blessuð sé minning Millýjar Birnu Haraldsdóttur.

Karl Tómasson.

Kæru vinir.

Innilegar þakkir sendum við ykkur öllum, sem hafið með, heimsóknum, símhringingum og skeytum fært okkur svo fallegar og góðar kveðjur.

Hafið það alltaf sem best.

Kærar kveðjur frá, Kalla, Línu, Óla og Birnu.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband