mán. 26.10.2009
Birgir og félagar í Lágafellskirkju
Fyrir nokkru síðan, skrifaði ég hér um fallega og einlæga sólóplötu vinar míns og félaga, Birgis Haraldssonar, söngvara Gildrunnar, sem nýlega kom út og ber nafnið, Sjáumst á ný.
Á sunnudaginn kemur, 1. nóvember, mun Biggi ásamt nokkrum félögum sínum flytja lög af plötunni í Lágafellskirkju.
Texta plötunnar á Þórir Kristinsson, gamli textahöfundur okkar Gildrufélaga en hann vann þessa plötu náið með Bigga undanfarin þrjú ár.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
sun. 25.10.2009
Hann hefur unnið hug og hjörtu okkar allra
Fyrir nokkrum vikum síðan, hringdi frændi minn og einn af mínum bestu vinum, Hallsteinn Magnússon, í mig, það gerir hann reyndar reglulega. Að þessu sinni snérist erindi hans um það, að góður vinur hans væri með 5 ára gamlan Íslenskan fjárhund sem vantaði gott heimili.
Hallsteinn vissi að sjálfsögðu um hundadelluna mína og áhuga allra fjölskyldumeðlima á þeim yndislegu skeppnum og hafði því strax samband við mig og spurði mig að því hvort ég væri ekki til í það, að taka góðan Íslenskan fjárhundhund inn í fjölskylduna. Í stuttu máli sagt voru endalokin sú, að ég og Óli minn fórum í Hafnarfjörð að heimsækja Trygg og hann kom með okkur heim.
Tryggur er einn mesti snillingur sem við höfum kynnst. Auðvitað þurfti hann sinn tíma til að taka okkur í sátt og við til að átta okkur á honum og öllum hans töktum, sem eru svo gengdarlaust magnaðir.
Tryggur hefur unnið hug og hjörtu okkar allra í fjölskyldunni. Hann er snillingur, stundum höldum við að hann skilji hvert einasta orð sem við segjum.
Svona rétt í lokin og pínu mont. Tryggur er þrefaldur íslenskur meistari. Við vissum það ekki þegar við fengum hann, enda hefði það aldrei orðið neinn vendipunktur í því hjá okkur að taka hann til okkar.
Við fréttum það þegar við fengum ættbókina hans.
Finnst ykkur hann ekki fallegur?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
lau. 17.10.2009
Meistarinn 80 ára
Þessa mynd tók ég af Guðmundi þegar hann tróð upp ásamt nokkrum félögum sínum, hér í Mosfellsbæ fyrir nokkrum árum síðan. Þetta er ein af mínum uppáhals myndum, sem ég færði honum síðar að gjöf, uppstækkaða og innrammaða.
Einn allra magnaðasti og skemmtilegasti trommari landsins, Guðmundur Steingrímsson, fagnar þann 19. október, 80 ára afmæli sínu. Ég hef verið svo heppinn að hafa kynnst Guðmundi og spilað með honum, það var sérstaklega gaman og skemmtileg lífsreynsla.
Guðmundur er ekki einungis frábær hljóðfæraleikari, heldur einnig, einstaklega skemmtilegur og ljúfur maður. Hann hrífur alla með sér og hefur bókstaflega þannig áhrif á menn og meðspilara að allt fer á ið. Guðmundur hefur haft mikil áhrif á alla sína samferðamenn í tónlist, svo ekki sé talað um trommuleikara landsins.
Bestu afmæliskveðjur kæri Guðmundur.
![]() |
Afmælistónleikar „Papa Jazz“ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
fim. 15.10.2009
Hún er svakalega fín þessi
Ég kíkti á uppskriftarsíðuna, vefuppskriftir.com í dag og fann þessa fínu fiskisúpu sem freystaði mín mikið.
Súpan var elduð á mínu heimili í kvöld og vakti mikla lukku.
Þessi súpa er nokkuð spes, get ég sagt ykkur kæru bloggvinir. Endilega látið slag standa og eldið hana við gott tækifæri.
Ilmurinn úr eldhúsinu er kröftugur og góður á meðan eldamennskan stendur yfir og jafnvel nokkuð lengi vel á eftir. Það gerir að sjálfsögðu gráðaosturinn.
Fiskisúpa veiðimannsins
Hráefni:
Þú þarft eftirfarandi hráefni í uppskrift að Fiskisúpu veiðimannsins.
2 gulrætur
1 laukur
Blómkál eftir smekk
1/4 hvítkál
1/2 lítri vatn
1/2 lítri mysa
2-3 fiskiteningar
1 gráðaostur
1/2 lítri rjómi
300 grömm rækjur
300 grömm kræklingur
Silungur eða lax
Eldunaraðferð.
Grænmetið er skorið smátt og soðið með fiskiteningunum, vatni og mysu. Osturinn settur út í og þá rjóminn. Soðið vel og lengi. Silungur eða lax flakaður og roðhreinsaður og skorinn í fingurssvera strimla. Sett út í súpuna ásamt rækjum og kræklingi. Soðið við vægan hita í 7 mínútur. Súpuna má þykkja með því að hræra tvær eggjarauður saman við mjólk og hella varlega út í og hita að suðumarki (ekki sjóða).
Ég fékk þessa uppskrift af Fiskisúpu veiðimannsins hjá vefuppskriftum.com. Hún var send þangað inn, af Elínborgu Baldvinsdóttur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
fös. 9.10.2009
Fundur VG félaga með Guðfríði Lilju í Mosfellsbæ
Laugardaginn 10. október verður félagsfundur Vinstri grænna í Mosfellsbæ haldin í Hlégarði kl. 12:00.
Sérstakur gestur fundarins verður, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.
Allir félagar hjartanlega velkomnir.
Kaffi og meðlæti.
Á myndinni má sjá vinkonurnar, Guðfríði Lilju, Silju Rún og Birnu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mikla athygli hefur vakið nú í miðri kreppunni og neikvæðu umræðunni allri hér á landi, frétt sem kom héðan úr Mosfellsbæ, þess efnis að náðst hefðu samningar um uppbyggingu einkarekins sjúkrahúss sem mun sérhæfa sig í mjaðma- og hnjáliðaaðgerðum.
Milljónir manna um heim allan bíða eftir slíkum aðgerðum.
Hér er um að ræða starfsemi sem kallar á, allt að 600 - 1000 störf. Vart þarf að fjölyrða um hverslags innspýtingu slík starfsemi kemur til með að hafa á allt samfélag okkar Mosfellinga og einnig fyrir nágrannasveitarfélög.
Fram hefur komið hjá forsvarsmönnum fyrirtækisins, að umhverfisstefna Mosfellsbæjar hafi ráðið úrslitum um val á bæjarfélagi. Undanfarin ár hefur mikil vinna verið lögð í stefnumótun bæjarfélagsins og hafa umhverfismál vegið þar þungt.Við Vinstri græn, í meirihluta bæjarstjórnar höfum látið mikið til okkar taka á þeim vettvangi.
Sérstaklega vil ég hrósa bæjarstjóra Mosfellsbæjar, Haraldi Sverrissyni og öllu hans starfsfólki fyrir hreint óbilandi eljusemi og trú á okkar sveitarfélagi, sem á endanum varð til þess að við hnepptum hnossið.Í stað þess að skrifa meira um þetta hér, vil ég heldur benda á slóð Mosfellsbæjar þar sem hægt er að lesa nánar um þessa framkvæmd mos.is
Bloggar | Breytt 5.10.2009 kl. 22:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
fös. 2.10.2009
Velheppnuð framkvæmd á gömlu fallegu húsi
Þessa gömlu og skemmtilegu mynd, fékk ég á dögunum, senda frá Birgi D. Sveinssyni. Þarna má sjá gamalt, einvalalið kennara, úr Mosfellssveitinni. Í efri röð frá vinstri: Séra Bjarni Sigurðsson, Lárus Halldórsson, Sigvaldi Sturlaugsson og Birgir D. Sveinsson. Í neðri röð frá vinstri: Tómas Sturlaugsson, Klara Klængsdóttir og Eyjólfur Magnússon.
Eins og flestir vita hefur Brúarlandshúsið fengið sitt gamla hlutverk og er orðið skólahús að nýju. Fyrsti framhaldsskóli Mosfellsbæjar hefur nú tekið þar til starfa og ríkir mikil ánægja á meðal nemenda og kennara.
Það hefur verið einstaklega gaman að fylgjast með þeim velheppnuðu framkvæmdum sem staðið hafa yfir á húsinu undanfarna mánuði og lýkur brátt. Arkitekt innanhúsframkvæmdanna var Vilhjálmur Hjálmarsson en hann lagði einnig á ráðin með breytingar í Varmárskóla á sínum tíma. Þessa dagana er unnið af fullum krafti utandyra, verið er að taka lóðina í kringum húsið í gegn og eins er unnið við múrverk á húsinu.
Það er mikið fagnaðarefni að brátt fær húsið sitt upphaflega útlit. Þegar þeirri vinnu hefur verið lokið, verður Brúarland vafalítið mikil bæjarprýði. Brúarlandshúsið er teiknað af Einari Erlendssyni, arkitekt og fyrrverandi fulltrúa húsameistara ríkisins. Bygging þess hóst árið 1922 og sama ár hófst kennsla í kjallaranum. Brúarland var reist í þremur áföngum.
Í ritinu: Skýrslur um nokkrar framkvæmdir ríkisins 1927-1930, sem kom út 1931, segir um Brúarlandshúsið: Á Brúarlandi í Mosfellssveit í Kjósarsýslu hefir verið reist myndarlegt skólahús úr steinsteypu; er þar og samkomusalur fyrir sveitina í kjallara hússins, sem jafnframt er notaður til leikfimikennslu. Á efri hæð þess er prýðileg skólastofa, þægileg íbúð fyrir kennara og heimavistir fyrir 20-30 börn. Húsið er 13,5 x 9,76 m stórt, og auk þess útbygging 7 x 4 m., allt hitað með hveravatni.
Góður kostur fyrir Mosfellsbæ
Í stefnuskrá okkar Vinstri grænna var það m.a. markmið að gera Brúarlandshúsið upp og fá því verðugt hlutverk í bæjarfélaginu. Þegar nefnd á vegum Menntamálaráðuneytisins, ásamt fulltrúum frá Mosfellsbæ, taldi húsið hentugt og heppilegt til að hefja þar, til að byrja með starfsemi Framhaldsskóla Mosfellsbæjar, var það vissulega í senn, mikið fagnaðarefni og einnig sérlega góður kostur fyrir okkur Mosfellinga. Kostnaður við viðgerðir á húsinu lagðist því ekki einungis á Mosfellsbæ. Vert er að þakka fyrrverandi menntamálaráherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sérlega gott samstarf, en hún sýndi húsinu og verkefninu mikinn áhuga, allt frá upphafi.
Þegar nýr framhaldsskóli verður risinn og tekinn til starfa, eigum við glæsilegt hús sem auðvelt verður að finna verðugt verkefni í bænum.
Brúarlandshúsið var um áratuga skeið miðdepill mannlífs í Mosfellssveit. Það var ekki einungis skólahús, heldur einnig aðal samkomustaður bæjarfélagsins. Það eiga margir gamlir Mosfellingar góðar minningar frá Brúarlandi og nú á þeim væntanlega eftir að fjölga áfram, jafnt og þétt.
Metnaðarfull uppbygging
Það er alltaf gaman þegar gömlum og fallegum húsum er sýnd virðing og þau gerð fallega upp. Fjöldi manna hafa komið að uppbyggingu Brúarlandshússins og er vert að þakka öllu því góða fólki fyrir metnaðarfullt starf. Ég held að á engan sé hallað þó að ég nefni hér sérstaklega nöfn Davíðs B. Sigurðssonar, umsjónamanns fasteigna Mosfellsbæjar og Jóhönnu B. Hansen, bæjarverkfræðingi. Þau hafa fylgt verkefninu eftir allt frá upphafi og lagt þunga áherslu á, að nýta allt það gamla sem mögulegt var í húsinu og með því að halda í því gamalli og góðri sál.
Gamlar og góðar minningar
Það er einnig sérlega góð tilfinning að sjá hús sem er manni svo kært verða svo fallegt að nýju. Í Brúarlandi var afi minn, Lárus Halldórsson, skólastjóri um árabil og bjó þar ásamt eiginkonu sinni Kristínu Magnúsdóttur og átta börnum. Afi Lárus réð föður minn, Tómas Sturlaugsson, sem kennara og þar kynntist hann móður minni, Gerði Lárusdóttur, dóttur Lárusar skólastjóra. Faðir minn varð svo seinna skólastjóri Varmárskóla eða til ársins 1977. Birgir D. Sveinsson, sem allflestir Mosfellingar þekkja, hóf sín kennarastörf í Brúarlandi og bjó þar einnig um tíma ásamt eiginkonu sinni Jórunni Árnadóttur og börnum. Klara Klængsdóttir sem nú dvelur á Hlaðhömrum var einnig kennari í Brúarlandi og Varmárskóla. Hún kenndi á þeim tíma þremur ættliðum í Mosfellssveit að lesa og synda. Klara bjó einnig um árabil í Brúarlandshúsinu.
Það var gaman fyrir mig að hringja skólabjöllunni í fyrsta sinn þegar Brúarland var að nýju vígt sem skólahús.
Ég veit að þetta er nokkuð persónulegt hjá mér hér í lokin, en það er gott að eiga gamlar og góðar minningar og ekki síður meira virði að varðveita þær.
Ég óska öllum Mosfellingum innilega til hamingju með Brúarlandshúsið.
Bloggar | Breytt 3.10.2009 kl. 12:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)