fös. 29.1.2010
Gullleikurinn
Nú hefur verið ákveðið að sýna úrslitaleik Íslendinga við ??????? á EM í hanbolta í íþróttahúsinu að Varmá á sunnudaginn. Húsið opnar kl. 16.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
fim. 28.1.2010
Sveitastjórnarráðstefna VG í Mosó
Nú hefur verið ákveðið að næsta sveitarstjórnarráðstefna Vinstri grænna verði haldin hér hjá okkur Mosfellingum helgina 12. og 13. febrúar.
Það er okkur Mosfellingum sönn ánægja að Mosfellsbær hafi orðið fyrir valinu að þessu sinni til þessa ráðstefnuhalds, nú þegar stutt er til næstu bæjar- og sveitarstjórnakosninga en Mosfellsbær var fyrsta sveitarfélagið sem Vinstri græn mynduðu meirihluta undir eigin merki.
Allar nánari upplýsingar um dagskrá sveitarstjórnarráðstefnunnar verður hægt að nálgast á heimasíðu okkar vgmos.is og á heimasíðu flokksins vg.isinnan tíðar.
Þriðjudaginn 9. febrúar kl. 20 verður haldin félagsfundur Vinstri grænna í Hlégarði. Allir félagsmenn eru boðnir hjartanlega velkomnir. Að sjálfsögðu verða komandi sveitarstjórnarkosningar meðal umræðuefnis.
Ögmundur og Óli Gunn formaður VG í Mos
Sérstakur gestur fundarins að þessu sinni verður Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og vafalítið koma að venju þingmenn kjördæmisins, Ögmundur Jónasson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir einnig til með að láta sjá sig og taka til máls.
Kalli og Kata á góðri stund.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
þri. 26.1.2010
Sænski eðalvagninn
Í kvöldfréttum var sagt frá því að samningaviðræður stæðu enn yfir í Stokkhólmi um að hollenski bifreiðaframleiðandinn Spyker kaupi sænsku SAAB bílaverksmiðjuna. Þetta virðist ætla að verða sagan endalausa.
Fyrir bílaáhugamenn og aðdáendur Saab er vissulega spennandi að fylgjast með afdrifum hins gamalgróna sænska eðalvagns. Ég hef átt þrjá Saab um dagana og allir voru þeir hin skemmtilegustu faratæki. Í dag sé ég óskaplega eftir að hafa látið tvo þeirra og þó sérstaklega einn.
Fyrsti Saabinn var af nákvæmlega þessari tegund árgerð 1973, minn var hvítur að lit.
Þá kom einn af þessari tegund 900 GL, árgerð 1982. Svakalegur eðalvagn þótti okkur hann alltaf.
Nokkru síðar eignaðist ég þennan fágæta sportbíl sem var aðeins framleiddur í nokkurhundruðum eintaka af Saab verksmiðjunum. Hann var árgerð 1972 og blár að lit. Ég seldi hann 1992 og sé alltaf mikið eftir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
fös. 22.1.2010
Nú nær karlremban hámarki
Þá er bóndadagurinn runnin upp og þorramatinn og þorrablótin sjá flestir í hillingum, ásamt öllu því sem þeim fylgir. Hrútspungarnir, kjammarnir og spikfeitir lundabaggarnir verða étnir þar til plássleysið er algert orðið. Þá verður vel kæstum hákarlinum skolað niður með nokkrum krapandi snöfsum af Íslensku brennivíni og því verður svo aftur skolað niður með nokkrum vel sveittum bjórum.
Að þessu öllu loknu er rekið hraustlega við og þá myndast jafnvel pláss fyrir pínu meira af öllu góðgætinu. Betra verður það ekki.
Ekta Íslensk þorrablót eru engu lík, karlremban allsráðandi, nánast hver einasti maður er með gullbarka og dansað er fram á nótt. Eitt slíkt verður nú haldið um helgina hér í Mosfellsbæ, það er þorrablót til styrktar íþróttafélaginu Aftureldingu. Ég hef mætt á þau öll og alltaf skemmt mér konunglega. Þar hittir maður marga mæta Mosfellinga.
Að loknu skemmtilegu blótinu er upplagt að fá sér hressandi göngutúr á sunnudeginum, hann þarf ekki að vera svo langur til að ná úr sér mesta ryðinu eftir stuttan svefn.
Talandi um hákarlinn, ég fékk smá smakk af honum í gær. Hann er gasalega góður, mér var sagt að hann kæmi frá hinum fræga hákarlaverkunarstað, Bjarnarhöfn og þaðan eru myndirnar tvær hér fyrir ofan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
mið. 20.1.2010
Rokk og ról í Mosó
Það ríkir mikil stemning í Mosó þessa dagana. Allt stefnir í metaðsókn á þorrblótið og Gildrutónleikarnir verða svakalegir.
Hvort komandi bæjar- og sveitastjórnakosningar eigi þátt í þessum þorrablóts og rokkanda sem nú ríkir í bæjarfélaginu skal ósagt látið.
Við þekkjum það samt flest, að frambjóðendur láta jafnan sjá sig á slíkum mannamótum, rétt eins og öðrum, á fjögurra ára fresti.
Undirbúningur fyrir endurkomu Gildrunnar og tónleikana í Hlégarði stendur nú sem hæst og allt gengur eins og í sögu.
Ljóst er að öllu verður til tjaldað og tækjabúnaðurinn og stælarnir verða slíkir að annað eins hefur ekki sést í Hlégarði, hvorki fyrr né síðar.
Sjáumst hress á blótinu
Eitt gamalt og gott með Gildrunni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
þri. 19.1.2010
Ótrúleg jákvæðni og uppbyggjandi umræða einkennir frambjóðendur og stuðningsmenn í Mosfellsbæ
Það er óhætt að segja að kosningastemningin sé hafin í Mosfellsbæ, þrátt fyrir að enn séu fjórir mánuðir í herlegheitin. Frambjóðendur og stuðningsmenn eru á feisinu sem aldrei fyrr og þar er sannarlega keppst um að fá sem flesta í vinagrúppur. Það má með sanni segja að þetta fari vel af stað. Verði jákvæð og skemmtileg barátta.
Reyndar er einhver óværð í Samfylkingunni þar sem tveir forsvarsmenn Varmársamtakanna hafa nú ákveðið að bjóða sig fram til forystu. Talandi um það, þá er mér minnisstætt þegar ég hafði orð á því fyrir tæpum fjórum árum síðan að þessi samtök snérust ekki um umhverfismál, heldur pólitík og þá allra helst aðdáun sína á Samfylkingunni. Fyrir þessi skrif mín og ummæli fékk ég heldur betur bágt fyrir á sínum tíma. Fullyrt var að samtökin og Samfylkingin ættu ekkert sameiginlegt.
Enn hvað hefur nú komið á daginn? Tveir fyrrverandi formenn Varmársamtakanna gefa nú kost á sér til að leiða Samfylkinguna í Mosfellsbæ. Það eru þau, Gunnlaugur B. Ólafsson og Sigrún Pálsdóttir.
Aðal stuðningsmenn Sigrúnar og Gunnlaugs Bé, eru, Ólafur, fyrrverandi gjaldkeri og stjórnarmaður Varmársamtakanna (hann er ekki á feisbúkk, bara á blogginu) og Kristín stjórnarkona, systir Sigrúnar. Stuðningssíða þeirra er heimasíða Ólafs gjaldkera. Þar má aldeilis lesa "uppbyggjandi" og jákvæð skrif um bæjarfélagið okkar og fólk sem hefur reynt að láta gott af sér leiða fyrir það.
Umræðan þeirra á milli fer að mestu leiti fram undir leyninöfnum, eins og raunin var hjá þeim forsvarsmönnum samtakanna á sínum tíma á síðunum tveim sem var lokað snarlega fyrir gengdarlaus sóðaskrif.
Annars svona rétt í lokin, mikið verður gaman að sjá ykkur á blótinu.
Þar verður fólk sem er ekki með allt á hornum sér, það er nokkuð víst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
þri. 19.1.2010
Slegið á létta strengi í Mosó
Í Mosfellsbæ eru nú þrír árlegir viðburðir orðnir að glæstum og vel sóttum hátíðum. Það eru, bæjarhátíðin okkar, Í túninu heima, þrettándagleðin og síðast en ekki síst þorrablótið, sem nú er framundan og verður haldið með miklum glæsibrag að vanda, næstu helgi. Allt stefnir í að þetta þorrablót verði það fjölmennasta frá upphafi.
Seint verður fullþakkað öllu því góða fólki sem hefur lagt dag og nótt við að gera þetta þorrablót okkar Mosfellinga að þeirri glæsilegu og skemmtilegu uppákomu og hátíð sem það er.
Sjáumst hress næstu helgi kæru sveitungar.
Ég og Hilmar vinur minn, ritstjóri Mosfellings, í góðri sveiflu á þorrablótinu í fyrra og eins og vanalega verðum við í góðum gír á blótinu næstu helgi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
fös. 15.1.2010
Blogglúðrasveit Samfylkingarinnar
Það er enginn vafi í mínum huga að Ögmundur Jónasson er hugsjónarmaður, sem hvorki fæst keyptur né seldur. Staðfesta Ögmundar í hinni hörðu Icesave rimmu þar sem hann sagði af sér ráðherradómi fyrir sannfæringu sína, sýnir svo að ekki er um villst að eiginhagsmunir vega ekkert fyrir þennan öfluga þingmann okkar íslendinga.
Ögmundur tjáir skoðanir sínar umbúðalaust og að vanda, ekki í neinum silkipakkningum með flokksslaufum. Á bloggsíðu sinni lýsir Ögmundur með sterkum áherslum fáránlegri afstöðu sænsku ríkisstjórnarinnar þar sem sænskir ráðamenn virðast líta á íslendinga sem vanskilamenn sem vilji ekki borga skuldir sínar.
Svo virðist sem Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, sem átti nýlega fund með sænskum ráðamönnum, hafi ekki tekist sem skyldi að kynna málstað Íslands sem Eva Joly hamast við að kynna út um allar koppagrundir nú um stundir.
Ögmundur sakar Svía réttilega um að vera handrukkara breta og hollendinga, enda reyna ríkisstjórnir þessara landa að innheimta frekar vafasama kröfu hjá íslensku þjóðinni með ofbeldi og kúgunum.
Ekki kom það mér sérstaklega á óvart að blogglúðrasveit Samfylkingarinnar þeytti sína lúðra gegn Ögmundi Jónassyni með miklu offorsi og sakaði hann um hroka og ofstopa.
Verður Esb umsóknin keypt hvaða verði sem er hjá Samfylkingunni?
Bloggar | Breytt 16.1.2010 kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
mið. 13.1.2010
Gítarveisla Bjössa Thor
Gítarleikararnir sem fram komu á tónleikunum.
Í lok síðasta árs, stóð gítarleikarinn góðkunni og magnaði, Björn Thoroddsen, í fjórða skipti á jafn mörgum árum fyrir tónleikum þar sem allir fremstu gítarleikarar landsins koma fram. Um þetta fjallaði ég hér á síðu minni á dögunum og birti viðtal, Bjössa Thor, við Sigurgeir Sigmunds, Gildrugítarleikara af þessu tilefni.
Sigurgeir í góðri sveiflu með Gildrunni í afmæli mínu. Hjalti Úrsus vel með á nótunum.
Í gær, kíkti ég í kaffi til Sigurgeirs á skrifstofu Fíh og ræddum við aðallega fyrirhugaða tónleika Gildrunnar í Mosó. Í samtali okkar, stakk ég því reyndar að Geira, hvað mér hafi fundist gaman af viðtali Bjössa Thor við hann á dögunum. Eins og fyrri daginn, ef ég nefni einhvern á nafn, þá er sá hinn sami mættur á svæðið skömmu síðar eins og ég hef skrifað um hér áður. Á því varð engin undantekning í gær, því skömmu eftir að ég nefndi Bjössa á nafn var kappinn mættur, þar sem við Geiri sátum tveir í mestu makindum að spjalla yfir góðum kaffibolla.
Þarna var hann mættur með glóðvolgan diskinn sem hljóðritaður var á gítartónleikunum góðu í Salnum í lok árs, eins og áður sagði og færði okkur Geira sitthvort eintakið. Það er óhætt að mæla með þessum grip, þar sem margir fremstu gítarleikarar landsins fara hreint á kostum.
Diskurinn nýútkomni
Meðal þeirra sem fram koma ásamt Bjössa og Geira eru: Tryggvi Hubner, Þórður Árna, Jón Páll, Gunnar Ringsted, Ólafur Gaukur, Þorsteinn Magnússon, Vilhjálmur Guðjónsson, Hjörtur Steinarsson, Eðvarð Lárusson, Sævar Árnason og Halldór Bragason.
Björn Thoroddsen spilaði margoft á Álafoss föt bezt á sínum tíma og mætti alltaf með einvala lið tónlistarmanna með sér. Þeir voru margir ógleymanlegir og magnaði tónleikarnir sem hann hélt þar.
Til hamingju með diskinn Bjössi og takk fyrir mig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
lau. 9.1.2010
Rimman um forsetann
Það hefur verið í nógu að snúast hjá atvinnu- og áhugamönnum um forsetaembættið undanfarna daga að skrifa og spekúlera, enda engin furða.
Því er ekki að neita að dramatíkin hefur á köflum verið svakaleg í þeim ummælum öllum og umræðu.
Einn mesti og dyggasti aðdáandi og áhugamaður um forsetaembættið s.l. 14 ár, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, segir á síðu sinni í nýlegri grein:
"Ég reyndist ekki sannspár um það, að Ólafur Ragnar Grímsson myndi staðfesta lögin um Icesave-samningana, þótt ef til vill hefðu eggjunarorð mín og nokkurra annarra áhrif á það, að hann synjaði þeim staðfestingar"
Úr þessum skrifum Hannesar má ekki skilja annað en að hann hafi átt þátt í ákvörðun forsetans.
Ekki er mér kunnugt um hvort Hannes Hólmsteinn hafi lagt Ólafi, klappstýru, Ragnari Grímssyni, orð í munn fyrir viðtalsþættina tvo sem hann fór í á dögunum, öðrum þeirra hjá gjammandi Jeremy Paxman, sem átti sér ekki viðreisnar von gegn Ólafi og hinum á fréttastofu Bloomberg. Við fáum eflaust fréttir af því hjá Hannesi síðar.
Frammistaða forsetans var mögnuð í þessum þáttum tveim og mikið var ég ánægður með klappstýruna eins og margir hafa kosið að kalla hann og þeir hinir sömu klappa nú linnulaust fyrir.
Ég veit ekki hvort ég geti treyst því að Hannes Hólmsteinn eigi þátt í þessu öllu og vil því síður klappa fyrir honum strax, rétt eins og mörgum skrifum sem hafa sullast upp úr pennum lýðræðissinnana í Samfylkingunni undanfarna daga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)