Mjög óvænt og skemmtileg heimsókn

Við fengum mjög óvænta, sérkennilega en skemmtilega heimsókn í sumarbústaðinn einn góðan sumardag.

Ég var að smíða eitthvað og vesenast, þegar allt í einu settist við hliðina á mér lítill sætur fugl. Hann var greinilega gæfari en eðlilegt getur talist svo ég bað Línu um að hlaupa inn í bústað og ná í myndavél. Þegar Lína kom út með myndavélina var fuglinn sestur á hausinn á mér og var hinn rólegasti.

Ýmislegt ótrúlegt og óvænt átti eftir að gerast þegar leið á daginn. Fuglinn varð skírður nokkuð fljótlega af heimasætunni og fékk nafnið Póló.

Póló dvaldi hjá okkur fram á kvöld og elti okkur hvert sem við fórum, bæði innan- og utandyra. Þegar við höfðum átt margar góðar stundir með Póló ákvaðum við að fara í langan göngutúr með hann á öxlinni að heimsækja frænku mína sem á bústað í nokkurhundruð metra fjarlægð frá okkar sumarhúsi. Við kynntum Póló fyrir húsráðendum þar, sem voru vitanlega mjög hissa að sjá þennan vin okkar á öxl minni.

Þegar þeirri heimsókn var lokið ákváðum við að komið væri að kveðjustund og kvöddum Póló með því að henda honum upp í loftið, hann flaug á brott og hvarf sjónum okkar.

Vitanlega var svolítill söknuður hjá okkur öllum og þó sér í lagi hjá heimasætunni.

Sagan er samt ekki öll sögð, því nokkrum klukkustundum síðar kom Póló aftur til okkar og dvaldi hjá okkur allt þar til við fórum að sofa en þá settum við hann í pappakassa og fórum með hann út.

Póló var farinn úr pappakassanum morguninn eftir og vonandi er hann nú búinn að koma sér vel fyrir í því umhverfi sem hann á heima.

Við áttuðum okkur fljótt á því að þarna væri sennilega um að ræða fugl sem hafi verið tekinn úr hreiðri, eða í það minnsta ófleygur og alinn upp af mannfólki. Slík umhyggja getur stundum verið varasöm þegar fram líða stundir.

Þá er sagan öll.

Picture 064
Póló nýkomin og sestur á hausinn á mér.
Picture 066
Póló fær vatn og Tryggur fylgist spenntur með.
Picture 184
Birna og Póló.
Picture 185
Seinni heimsóknin hjá Póló og þarna er komið kvöld. Lína og Póló í heilmiklum samræðum.
Picture 186
Póló fékk aðeins að kíkja inn en var að því loknu kvaddur.

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: FORNLEIFUR

Þessi starri (sturnus vulgaris vulgaris) sem heimsótti ykkur er nýlega orðinn fleygur.

FORNLEIFUR, 3.9.2013 kl. 22:40

2 Smámynd: Karl Tómasson

Takk fyrir þessar upplýsingar kæri Fornleifur.

Við þorðum ekki annað en að kalla þetta "lítinn fugl" í færslunni vegna þess að það hafa komið upp ýmsar kenniningar um tegund þessa fugls hjá þeim sem sáu þessar myndir hjá okkur áður en við settum þær á bloggið.

Bestu kveðjur frá KáTomm úr Mosó.

Karl Tómasson, 3.9.2013 kl. 23:29

3 Smámynd: FORNLEIFUR

Ungir starrar eru mjög gráir á haustin, en maður sér hvað verða vill á bringu fuglsins.

FORNLEIFUR, 3.9.2013 kl. 23:43

4 Smámynd: Karl Tómasson

Bestu þakkir fyrir þennan fróðleik Fornleifur.

Kær kveðja úr Mosó frá KáTomm.

Karl Tómasson, 4.9.2013 kl. 00:03

5 Smámynd: Snorri Hansson

Fyrir afar mörgum árum síðan var ég að gera vorhreingerningu á bílnum mínum við bensínstöð sem var þá við Elliðaárnar. Skyndilega sest hrafn á öxlina á mér. Fuglar og dýr hafa alltaf verið mitt áhugamál svo ég ákveð að standa alveg kyrr. Hrafninn gramsaði með goggnum í hárinu á mér (sem þá var á sýnum stað) og eyranu.  Hann flýgur  á brott en nokkrum mínútum síðar kemur hann aftur og sest á bílinn. Hoppar meðal annars ofan í skottið og togar þar í kaðla og annað drasl,síðan fer hann á hausinn á mér og á öxlina laumar goggnum ofan í brjóstvasan framan á jakkanum mínum . Tekur þar nokkra miða sem þar voru sem voru upplýsingar um biluð sjónvörp sem ég átti eftir að gera við í heimahúsum.  Og þar með var hann farinn. Fyrir mig var þetta mikið ævintýri sem ég hugsa oft til.

Snorri Hansson, 4.9.2013 kl. 15:49

6 Smámynd: Karl Tómasson

Heill og sæll Snorri.

Þetta er bráðskemmtileg saga og þakka þér fyrir að deila henni hér. Eigendur sjónvarpstækjanna eru væntanlega enn að bíða eftir þér.

Bestu kveðjur úr Mosó frá Kalla Tomm.

Karl Tómasson, 4.9.2013 kl. 20:00

7 Smámynd: Snorri Hansson

Afsakanirnar voru afar vandræðalegar og ótrúverðugar :)

Snorri Hansson, 5.9.2013 kl. 02:21

8 Smámynd: FORNLEIFUR

Hrafn gerði við tækin og tók himinháar upphæðir. En það er langt um liðið fyrst hann gramsaði í hárinu á Snorra

FORNLEIFUR, 5.9.2013 kl. 19:51

9 Smámynd: Karl Tómasson

Þetta hefur semsagt verið hárreikningur.

Ég sé fyrir mér þegar einn viðskiptavina Snorra fór að lengja eftir honum og hringdi í hann til að ahuga með sjónvarpsviðgerðina.

Viðskiptavinurinn. "Sæll Snorri, hvernig er það, ert þú ekki að koma að laga hjá mér sjónvarpið".

Snorri. "Jú nú fer ég að koma ég lenti í því að Hrafn stal minnismiðanum úr brjóstvasa mínum og því glataðist heimilisfang þitt". 

Bestu kveðjur úr Mosó frá KáTomm.

Karl Tómasson, 5.9.2013 kl. 21:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband