Síðan eru liðin 20 ár

Huldum 10 ++ copy

Hugarfóstur

Um þessar mundir eru liðin 20 ár frá því að við félagarnir og vinirnir í Gildrunni gáfum út okkar fyrstu plötur. Systurplöturnar tvær, Huldumenn og Hugarfóstur. Þær eru báðar ófáanlegar í dag. Huldumenn kom einungis út á vínil en Hugarfóstur einnig á CD.

Mikið voru þetta skemmtilegir tímar og góður félagsskapur. Vinátta sem risti djúpt og aldrei gleymist á meðal okkar allra sem að Gildrunni komu. 

Vinkona mín Hjördís Kvaran skrifaði ritgerð í HÍ um texta Gildrunnar (Þóris Kristinssonar) og tek ég mér það bersaleifi að birta brot úr henni hér. Textar við lög hljómsveitarinnar vöktu mikla athygli og var talsvert um þá skrifað í fjölmiðlum.

Rjóður og heiðin

Haft eftir Þóri í ritgerð Hjördísar. “Báðar þessar plötur voru algjörlega unnar í Rjóðri og allnokkrir textar Þóris eru samdir um heiðina þeirra og Rjóður. Rjóður var sumarbústaður sem var æfingahúsnæði Gildrunnar á Kjalarnesi uppvið Mosfellsrætur. Þangað var iðulega lagt í miklar svaðilfarir, nánast upp á líf og dauða á hálfaflóga Benz-kálfi sem þeir áttu:

„Þetta var heiði sem við þurftum að fara yfir og þetta var æði skuggalegt að fara á veturna í miklum snjó, kolniðamyrkri og Vimmi1 og Benzinn að þræða veginn eftir minni þegar hafði snjóað. Fyrst þegar menn komu inn í Rjóður þá var svo kalt að við þurftum að kveikja á svona 200 kertum inni til þess að fá hita í kroppinn. Þessi staður er alveg óskaplega fallegur. Þarna vorum við, komnir út úr öllu og ekkert heyrðist og nóttin er svo stjörnubjört og það var svo fallegt þarna. Ég var undir miklum áhrifum frá þessum stað í textagerðinni“(Þórir Kristinsson 2007).

Myndin framan á Huldumönnum, ramminn utan um myndina af Gildrunni, er af hjólförunum á veginum upp eftir og er því bein tilvísun í Rjóður. Þegar í Rjóður var komið tóku við stífar æfingar en stundum var slegið á léttari strengi og fengið sér í glas og haft gaman af lífinu:

„Talandi um góðan anda í Rjóðri. Þegar við komum þarna og vorum að fóðra hagamýsnar á Pripps og sykurmolum, þetta voru drykkfelldustu mýs Íslandssögunnar og þær voru ekki fáar, það var stundum mjög ört á bænum, en það var bara allt í lagi“.(Þórir Kristinsson 2007)

Þarna uppfrá urðu mörg ljóðanna til og fjalla flest um Rjóðrið eða það ævintýri sem það var að komast þarna upp eftir. Villtur og Förumaður af Huldumönnum og Heiðin og að ekki sé talað um Værð af Hugarfóstri eru öll ljóð sem eru samin um þennan stað. Villtur er lýsandi fyrir það sem áður var nefnt, tilfinningin um heiðina á leiðinni upp í Rjóður í alls konar veðri og einstaklega miklum snjó. Heiðin er um það sama – að vera einn og villtur á heiðinni. Það er öllu léttari tónn í ljóðunum Förumaður og Værð. Förumaður er enn og aftur um einhvern á leiðinni yfir heiðina en að þessu sinni er sumar og bjart yfir öllu, lóan er komin.

Sú túlkun sem fólk hefur lagt í lagið Værð, sem er eitt þekktasta lagið af þessum plötum, einkennist af einskonar bricolage, fólk hefur hent það á lofti og gert að sínu enda er það sívinsælt jafnt í brúðkaupum sem jarðarförum. Í textanum segir: Þú söngst í Rjóðri við sólarlag en fólk hefur oftar en ekki álitið stóra r-ið vera prentvillu í textanum. Almennt er álitið að ljóðið sé ástarljóð af klassísku gerðinni en textinn er enn ein persónuleg tilvísun Þóris. Ljóðið er alls ekki klassískt ástarljóð heldur er það samið til Birgis söngvara hljómsveitarinnar og Rjóðurs. Lagið við Værð er eitt elsta lagið sem
1. Vimmi er Vígmundur Pálmarsson rótari og bílstjóri Gildrunnar á þessum árum.

Birgir hefur samið og hann hafði samið við það texta þar sem hin fallega lína: um ástir og eilífan dans kemur fyrir. Þórir hélt þessari línu inni þegar hann samdi nýjan texta og úr varð þessi fallega ballaða. Í ljóðinu er annað persónulegt djók Þóris þar sem kemur hendingin í húminu // værðist vindurinn og margir hafa álitið vera prentvillu í textabókinni en er það ekki, þetta á að vera svona og Birgir syngur alltaf værðist.

Lokaorð

Þegar litið er til baka yfir farinn veg er augljóst að lögin á Huldumönnum og Hugarfóstri hafa elst mjög vel. Þegar platan Huldumenn kemur út er hún á skjön við vel flest það sem var að gerast, og það er kannski þess vegna sem að hún lifir svona góðu lífi í dag, hún var eitthvað nýtt, ósvikið. Enn í dag er hún sívinsæl og hefur ekki misst þann ósvikna tón sem hún vakti svo mikla athygli fyrir í upphafi.

Það vita allir hver Gildran er þó ekki hafi farið mikið fyrir henni í gegnum tíðina á vinsældarlistum. Í dag er hljómsveitin orðin hálfgert költ og nýtur t.d. mikillar virðingar hjá ungum bílskúrsböndum sem eru að reyna fyrir sér í dag. Hún er virt sem einn af hornsteinum íslenskrar alþýðumenningar og -tónlistar. Gildran þykir töff hljómsveit í dag.
Huldumenn var mikil tímamótaplata og henni var vel fylgt eftir af Hugarfóstri. Plöturnar eru systur þar sem þær eru unnar mjög náið og á mjög skömmum tíma. Saman mynda þær því sterka heild.

Mærin

Meyjan hrein
Sér þú til mín
Alltaf ein
Bænin ein
Ber mig til þín
Meyjan hrein

Faðir vor
Sér þú til mín
Engin orð
Himna storð
Tak mig til þín
Faðir vor

Bregður birtu
Mærin sofnar
Dofnar dagur burtu
Daufri varpar glóð

Kristur kær
Kom þú til mín
Himni nær
Hatri fjær
Tak mig til þín
Kristur kær.

Vorbragur

Vaknar allt á vorin
Vermir sólin landið
Grænu laufin borin
Brotið verður bandið

Blíður syngur blærinn
Brosir gulli sólin
Vaknar aftur bærinn
Börnin vantar í bólin

Opin Laugarvegur
Iðar Austurstræti
Digur andann dregur
Dúfa í heiðursæti

Fuglum iðar tjörnin
Fegra loftið sönginn
Brauði kasta börnin
Dapur er nú enginn

Situr bakvið sundin
Esjan undur fríða
Léttist aftur lundin
Dýrðar dagar líða.

Værð

Þú komst með vorið
um vetrarnótt
og vaktir huga minn
í húminu
værðist vindurinn
hann himneskan
heyrði sönginn þinn

Um ástir og eilífan dans

Þú söngst í Rjóðri
um sólarlag
og fluttir sálminn þinn
í kyrrðinni
kvaddi helkuldinn
hann heilagan
kveikti neistann minn

Um ástir og eilífan dans

Þú varst með völdin
um vetrarnótt
og sýndir styrkinn þinn
á heiðinni
heyrðist hljómurinn
hann háfleygan
hreyfði drauminn minn

Um ástir og eilífan dans.

Svarta blómið

Þekkirðu myrkrið þunga
Þagnarinnar sjávarnið
Næturskugga dauðans drunga
Drottins djúpu harmamið

Sorgin ein
Ég sit og bíð
Komir þú
Og gef mér frið
Vonin ein
Gefur grið

Sárt það er að syrgja
Þá sálin vætist blóði
Sorgina inni að byrgja
Brotna tára flóði

Hugann fyllir haustið
Horfin út í tómið
Birtan bak við brjóstið
Blómstrar svarta blómið. 

 

 

 

 


Bloggfærslur 13. júlí 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband